Í bók sinni Website owner’s manual talar Paul Boag um sex grunnstoðir í smíði og hönnun vefs. Þetta eru nytsemi, aðgengileiki, útlitshönnun, tækniþróun, “killer content” og skýr markmið. Hlutverk vefstjóra er að standa vörð um þessar stoðir og tryggja jafnvægi á milli þeirra annars getur byggingin fallið.
Skoðum þessar stoðir nánar.
1. Nytsemi
Að gera vef notendavænan er óumdeilanlega eitt mikilvægasta verkefni í vefhönnun en of mikil áhersla á að gera vefinn notendavænan getur komið niður á markmiðum vefsins, haft slæm áhrif á hönnun hans og jafnvel komið niður á aðgengileika.
2. Aðgengileiki
Það eru margar góðar ástæður fyrir því að leggja áherslu á aðgengismál aðrar en þær að uppfylla lagalegar og siðferðilegar skyldur gagnvart þeim sem eru fatlaðir á einhvern hátt.
3. Vefhönnun
Lengi vel var ofuráhersla á vefhönnun sem kom niður á öllum öðrum grunnstoðum vefhönnunar en góð vefhönnun verður engu að síður seint ofmetin.
4. Fylgja tækniþróun
Það getur verið dýrkeypt að fylgjast ekki með þróun í tæknimálum vefsins og skilið vefinn þinn eftir í samkeppninni. Þú þarft ekki að kunna skil á allri tækninni en þú þarft að fylgjast með.
5. Búa til “killer content”
Það vita það allir sem koma að vefstjórnun að skrif fyrir vefinn er líklega vanmetnasti hlutinn en jafnframt einn sá mikilvægasti. Það væri enginn vefur án texta og hann þarf að vera vel skrifaður og framsettur. Annars kemur enginn á vefinn þinn.
6. Skýr markmið
Vefstjóri þarf alltaf að minna sig á hver markmið með vefnum eru. Til hvers er vefurinn, hverju á hann að skila og hvernig mælum við árangurinn? Þetta eru spurningar sem þarf að vaka yfir.
Þessar sex grunnstoðir rekast oft á og það er hlutverk vefstjórans að miðla málum og ná því besta úr þeim öllum.