Fæst fyrirtæki ráða einhvern sérstaklega til að sjá um skrif á vefinn og mjög gjarnan er efni á vefnum sá þáttur sem er skilinn eftir þegar kemur að skipulagi vefverkefna og líklegastur til að tefja opnun nýrra vefja. Menn vakna við vondan draum í lokin, ó já textinn… hver ætlaði að sjá um hann? Getum við ekki bara notað efnið á gamla vefnum? Afritað textann úr ársskýrslunni og bæklingunum? Því miður þá er oft reyndin að ekki hefur verið hugsað fyrir efninu, það á bara að eiga sér stað eitthvað kraftaverk á ákveðnum tímapunkti!

Fyrir hvert vefverkefni þá þarf strax að byrja að huga að textagerð og hafa einhvern ábyrgan fyrir því. Yfirleitt er það vefstjórinn sjálfur en hann getur aldrei gert það einn. Hann þarf að leita til sérfræðinga innan fyrirtækisins og fá þá til að skrifa tiltekna kafla, lítið atriði eins og lagalegur fyrirvari vill gleymast.

Þegar vel er að gáð þá er efni á vefnum oft eins og einn stór ruslahaugur eða mjög illa skipulögð geymsla. Það er haugur af síðum sem maður er búinn að gleyma að hafi verið til, ekki nokkur hefur skoðað, efnið ekki verið uppfært síðustu þrjú ár, brotnir linkar, misvísandi upplýsingar og hreinlega bara rotið.

Við skipulag verkefna þarf því strax að setja efni inn í áætlunina og hefja snemma í ferlinu innsetningu efnis þó svo að enn sé verið að vinna í hönnun og forritun vefsins.

 

Fólk les ekki, það skannar og skimar…
Það eru gömul og ný sannindi að fólk les ekki á vefnum. Það skannar. Þess vegna er svo mikilvægt að hafa ekki aðeins textann knappan og læsilegan heldur þarf að huga mjög vel að tenglum og vanda valið á heitum þeirra. Eins þarf að hafa góðan aðgang að öðrum vefjum því vefurinn gengur jú einu sinni út á að tengja ólíkar síður og vefi saman. Notandinn lendir iðulega á síðu einhvers staðar inni á vefnum út frá niðurstöðu í leitarvél, RSS veitu, bókamerki, tengli frá annarri síðu eða í tölvupósti. Notandinn þarf strax að geta áttað sig á hvar hann er, hvert hann getur haldið.

Grunnreglurnar eru þessar:

– Á upphafssíðu þarf að vera mjög skýr og stuttur texti.

– Á forsíðum einstakra meginkafla er nánari útskýring og öllu meiri texti um þá þjónustu eða vöru sem þú ert að kynna.

– Á undirsíðum þá er notandinn, ef hann hefur farið svo langt, tilbúinn fyrir meiri upplýsingar og hið knappa form lætur undan.

Það mikilvægasta í skrifum fyrir vefinn er að ákveða hvað þarf ekki að vera þar. Vefstjórinn þarf að fara með gagnrýnum augum á efnið og spyrja sig hvort tiltekið efni eigi endilega að vera inni og hvort það sé jafnvel bara einhver uppfylling. Það er alls ekki mælikvarði á góðan vef hve margar síður eru inni á honum. Og ekki síður mikilvægt er að skera textann niður.

Jónas Kristjánsson, fyrrverandi ritstjóri, hefur skrifað leiðbeiningar um skrif fyrir vefinn á jonas.is – hann fylgir má segja ameríska skólanum í blaðamennsku þar sem setningar eru mjög knappar og öll óþarfa orð eru tekin út.

Steve Krug segir í sinni frábæru bók Don’t make me think frá 2006 að menn eigi að byrja á því að losa sig við helming allra orða á síðunni og síðan losa sig við helming af því sem eftir stendur og þá standa eftir 25% af orðunum. Málið snýst um að losa sig við ónauðsynleg orð. Kostirnir eru að það minnkar „hávaða” á síðunni, það gerir efni sem skiptir máli meira áberandi og það það gerir síðurnar styttri, notendur sjá meira á skjánum án þess að skrolla.

Þetta sjónarmið Steve um 25% regluna kann að þykja ansi öfgafullt en það eru mikil sannindi í þessu og það sem vinnst með þessu er m.a. að minni líkur eru á að notandinn villist, gagnlegar upplýsingar verða enn sýnilegri, kemur í veg fyrir að vefurinn verði yfirþyrmandi fyrir notandann og hjálpar honum að finna efni með skjótari hætti. Gömlu sannindin um „less is more” eiga hvergi betur við en á vefnum.

Paul Boag talar um þrjú skref í skipulagningu efnis á vefnum.

1. Er efnið að aðstoða við að ná markmiðum fyrirtækisins (business objectives)?
2. Hjálpar efnið við að ná settum árangursmarkmiðum vefsins t.d. varðandi sölu á þjónustu eða vöru?
3. Munu notendur í þínum markhóp lesa efnið og ná sínum markmiðum?

Einn besti mælikvarðinn á hvort efni eigi að vera inni á vefnum eru upplýsingar um umferð á síðuna á núverandi vef ef hann er fyrir hendi. Rýndu vel í gögn um umferð á vefnum þegar þú ákveður hvaða efni eigi heima á nýja vefnum.

Losaðu þig við allt markaðsbabl (marketing blurb) og skerðu niður leiðbeiningatexta. Steve Krug talar um að „happy talk” sem er svo víða inni á vefsíðum og „small talk”, þetta er efni sem gagnast engum og á að hverfa. Það er líka staðreynd að fólk les ekki leiðbeiningatexta, langur slíkur texti hindrar bara notandann í að sækja það efni sem skiptir máli.

Mynd: FreeDigitalPhotos.net

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.