WordPress er vinsælasta vefumsjónarkerfi heims í dag. Það hefur um 200 milljón notendur og frá ágúst 2011 knýr kerfið um 22% allra nýrra vefja í Bandaríkjunum skv. Wikipedia. Þetta er mögnuð velgengni en en kerfið á sér aðeins sögu aftur til ársins 2003. Stofnandinn er hinn tæplega þrítugi Matt Mullenweg.
Upphaflega var kerfið byggt sem bloggkerfi og gegnir áfram vel því hlutverki. Kannski ekki síst vegna upprunans hafa margir fremur neikvætt viðhorf til þess og telja að það þjóni ekki hefðbundnum vefjum.
Það eru um þrjú ár síðan ég hóf að nota kerfið og frá þeim hef ég unnið að uppsetningu fjölmargra vefja í WordPress. Fúnksjón.net er settur upp í þessu kerfi auk þess sem nemendur mínir í Háskóla Íslands setja upp WordPress vef og vinna allt efni námskeiðsins inn á vefinn.
Kerfið er sérlega notendavænt þó það sé fjarri því að vera fullkomið vefumsjónarkerfi. Flestir sem eru þokkalega tölvulæsir eiga í engum vandræðum með að setja upp vef í WordPress. Snilldin er ekki síst að það eru notendur um allan heim sem eru að þróa kerfið og bjóða upp á alls kyns viðbætur, oftast án endurgjalds. Ef vefstjóra vantar einhverja tiltekna virkni inn á vefinn þá er jafn víst að nokkrir eru búnir að smíða lausnina fyrir WordPress. Einnig er auðvelt að verða sér úti um sniðmát fyrir lítinn pening eða jafnvel endurgjaldslaust.
WordPress er tilvalið vefumsjónarkerfi fyrir fyrirtæki, félög og stofnanir sem hafa lítið fé milli handanna. Mörg íslensk sprotafyrirtæki hafa sett upp vefi í WordPress. Það er ástæðulaust að hafa áhyggjur af því að kerfið standi ekki undir vexti vefsins, víða erlendis eru t.d. háskólar með umfangsmikla vefi sem eru knúnir með WordPress.
Að endingu má geta þess að Paul Boag, vefhönnuður og stofnandi Boagworld.com, setti upp sinn vef í WordPress. Eru það ekki nægileg meðmæli?
One Comment