Starf vefstjóra krefst yfirgripsmikillar þekkingar en er samt ekki sérfræðingsstarf. Vefstjóri er ekki útlærður í neinu fagi en þarf að þekkja mörg svið og hafa fjölbreytta hæfileika. Fyrst og síðast snýst starf vefstjórans um almenna skynsemi. Ef þú hefur hana ekki þá er starfið ekki fyrir þig.
Heimilislæknir en ekki sérfræðingur
Líklega er besta samlíkingin við starf heimilislæknisins. Hann þekkir líkamann út og inn, getur greint vandamál, veitt ráðgjöf en heimilislæknirinn þekkir sín takmörk og vísar sjúklingum til sérfræðinga þegar hans þekkingu sleppir.
Það er nákvæmlega það sem vefstjóri þarf að gera. Góður vefstjóri hefur næga þekkingu til að greina mál og átta sig á hvenær þarf að kalla til sérfræðing, hvort heldur það er vefhönnuður, forritari, kerfisstjóri, orðsnillingur, upplýsingaarkitekt, sérfræðingur í nytsemi, aðgengismálum, leitarvélum eða öðru sviði sem tengist vefnum.
Fólk sem sinnir vefstjórn hefur oft á tíðum mismunandi bakgrunn og án nokkurs vafa finna margir fyrir óöryggi í starfi því oftar en ekki „lendir“ fólk í hlutverkinu án þess að hafa ætlað sér það. Í íslenskum veruleika er starfið oft hlutastarf og þá bætist við samviskubitið að ná ekki að sinna starfinu almennilega.
Sáttasemjari í sífelldri sköpun
Starf vefstjóra er lifandi og skapandi starf. Hann sér afrakstur vinnu sinnar á hverjum degi ólíkt mörgum öðrum. Starfið hentar hinum óþolinmóða, þeim sem vill sjá hlutina gerast helst í gær.
Nákvæmni er einnig dyggð í starfinu, það hefur fátt meiri áhrif á trúverðugleika vefs en óvönduð vinnubrögð, hvort heldur það er í efni, hönnun eða forritun.
Til að tolla í starfinu þarf að sinna stöðugri endurmenntun. Það er hins vegar lítið framboð af námskeiðum sem kenna tökin á vefstjórn. Merkilegt nokk, það er heldur ekki til mikið af kennsluefni í formi bóka fyrir vefstjóra, þó ógrynni sé til af efni fyrir allt sem lýtur að vefmálum, þ.e. forritun, vefhönnun, nytsemi, skrifum og verkefnastjórn svo dæmi séu nefnd.
Einn mikilvægasti hluti starfsins er að kunna að miðla málum milli ólíkra sjónarmiða. Vega og meta mikilvægi nytsemi, aðgengismála, hönnunar, tækni, efnis og markmiða. Ekkert af þessum atriðum er hægt að hugsa nema í samhengi við hvert annað.
Uppskrift að hinum fullkomna vefstjóra
Ég stend fastar á því en fótunum að vefstjóri verður að hafa grunnþekkingu á HTML. Án hennar kemst hann ekki langt. Það er ekkert vefumsjónartól það gott að ekki komi til þess að skoða þurfi kóðann til að laga vefsíður.
Vefstjóri þarf líka að kynna sér aðra tækni á bak við vefinn og ekki láta máta sig of auðveldlega af kerfisstjóra eða forriturum með hugtökum á borð við DNS, .NET, ASP og CSS.
Vefstjóri er gjarnan ritstjóri vefsins og því nauðsynlegt að hafa gott vald á íslensku og helst góða færni í ensku. Hann þarf að geta skrifað lipran texta og sinnt krefjandi starfi ritstjóra.
Vefstjóri þarf að hafa innsýn í starf markaðsfólksins og skilja þarfir þeirra og um leið hafa hemil á stundum óraunhæfum hugmyndum sem ganga ekki upp á vef.
Hann þarf að kunna skil á markaðssetningu á netinu og leitarvélabestun (SEO).
Vefstjóri þarf að hafa skilning á grunnatriðum myndvinnslu, vefhönnunar og læra að þekkja notendur. Hann þarf að kynna sér rannsóknir á sviði nytsemi og atferli fólks á netinu.
Mikilvægt er að geta talað við stjórnendur, hafa sannfæringarkraft til að tryggja stuðning þeirra við vefmálin og fá fjármuni til að sinna þeim vel.
Mannleg samskipti þurfa að leika í höndunum á vefstjóra. Hann þarf að leiða saman ólíka sérfræðinga og verkefnastýra þeim.
Líklega er allra mikilvægasti hæfileikinn sá að geta tekið ákvarðanir og komið hlutum í verk! Ef hópi af fólki er ætlað að fara yfir útlitstillögur að vef þá er jafn líklegt að jafn margar skoðanir komi fram og fjöldinn er á fundinum. Mikilvægt er að geta tekið slaginn og leitt umræðuna. Það er vefstjóra að taka lokaákvörðun rétt eins og skipstjóra á eigin skipi. Kúnstin er að taka tillit til ólíkra skoðana og láta sem að allir hafi haft áhrif á lokaútkomuna.
Nánari upplýsingar
One Comment