Á vefnum er mikilvægt að vinna að stöðugum umbótum og í átt að einfaldleika. Steve Jobs, forstjóri Apple, hafði þessi gildi í heiðri í sinni vöruþróun.*
Ein megin lífsspeki Steve Jobs, forstjóra Apple, á vel við á vefnum. Þessi speki, eða mantra, kemur úr Zen Búddisma og snýst um fókus og einfaldleika. Steve yfirfærði þessa hugsun á vörurnar sem Apple þróaði. Hann kaus að einblína á fáar vörur sem buðu upp á einfaldara viðmót en þekktist á markaðnum.
Einblínum á aðalatriðin
Á vefnum eru þessi gildi – fókus og einfaldleiki – sérstaklega mikilvæg. Við þurfum að einblína á fá en mikilvæg verkefni á vefnum og gera þau eins einföld og mögulegt er fyrir viðskiptavininn. Ef við förum úr einu verkefni í annað til að mæta nýjungaþörf okkar og gera stöðugt svala hluti þá er jafn víst að vefurinn skilar ekki því sem ætlast er til af honum.
Við lifum hins vegar á kapitalískum tímum þar sem framleiðsla er í hávegum höfð. Ef þú framleiðir mikið þá ertu að sinna vinnunni. Það er því ekkert sérlega töff eða jákvætt að hlúa að því sem fyrir er og gera það betra. Nútímahetjan vill eitthvað nýtt, búa til eitthvað sem engum öðrum hefur hugkvæmst áður.
Vefstjórar þurfa að bera virðingu fyrir tíma viðskiptavinarins og sólunda honum ekki að óþörfu. Gera hlutina vel, einfalda og huga að stöðugum endurbótum á kjarnaverkefnum. Þannig getum við hjálpað notendum að klára verkefnin sem þeir komu til að sinna á vefnum.
Vefurinn er eilífðar beta-verkefni
Eitt það mikillvægasta sem vefstjórar þurfa að búa yfir er samkennd með viðskiptavininum, hafa hæfileikann til að setja sig í spor hans. Munum að viðskiptavinurinn er ókunnug manneskja sem við þurfum að læra að þekkja. Við þurfum að fylgjast með honum, kalla á hann í prófanir og læra af hegðun hans.
Við þurfum að gera honum auðvelt að senda okkur skilaboð og eiga samskipti við okkur á vefnum. Að skilja það sem virkilega skiptir máli fyrir hinn ókunnuga er mesta áskorun sem vefstjórar standa frammi fyrir.
Vefurinn er í raun fjarlægur og kaldur staður. Að reka vef er ekki eins og að reka veitingastað eða verslun þar sem þú getur fylgst með kúnnanum inni í hlýjunni. Þú færð ekki venjuleg viðbrögð frá honum eins og í verslun væri. Það er áskorun að fá viðskiptavininn til að tjá sig, skilja eftir skilaboð og koma með ábendingar um það sem betur má fara. En vefjum sem tekst að fá regluleg skilaboð frá notendum þegar þeir reyna að klára verkefni sín á vefnum eru líklegastir til að ná árangri.
Í raun er vefurinn eilífðar beta-verkefni, því er aldrei lokið. Þannig sýn hefur Google en fyrirtækið setur nær aldrei fullbúna vöru úr kassanum í loftið. Í staðinn setja þeir í loftið beta útgáfur, sem hafa farið í gegnum fyrstu prófanir og eru síðan settar út til almennings til frekari prófana, t.d. A/B prófanir. Þetta er klárlega uppskrift að árangri rétt eins og Apple tíðkar með sinni aðferðafræði um fókus og einfaldleika.
Velgengni á vef snýst um sálfræði
Leyndarmálið á bak við velgengni á vef snýst um sálfræði en ekki tækni. Þess vegna er svo mikilvægt að fylgjast með hegðun raunverulegra viðskiptavina sem reyna að ljúka lykilverkefnum á vefnum.
Frábær vefteymi eru ekki hrædd við að sinna verkefnum sem þykja leiðinleg og eru endurtekin, það þarf að vinna að stöðugum endurbótum. Það er auðvitað miklu meira spennandi að gera stóra endurhönnun, en það er samt nærri því alltaf mun meiri ávinningur – og mun ódýrara – að leysa grundvallaratriðin og einblína á daglegar umbætur á því sem skiptir mestu máli.
Auðmýkt, samkennd og einfaldleiki eru gildi sem engin trúarbrögð eiga einkarétt á. Þetta eru gildi sem eiga vel við á hinum veraldlega vef. Höfum í hug að minna er meira á vefnum, einfaldara er betra en flókið og þolinmæði er dyggð því skilningur á þörfum hins ókunnuga er langtímaverkefni. Vöndum okkur á vefnum, þá græða allir.
* Greinin er skrifuð undir áhrifum lesturs bókar Gerry McGovern: The Stranger’s Long Neck. Frábær lesning fyrir vefstjóra!
Námskeið á næstunni:
Endurmenntun: Starf vefstjórans og stjórnun vefverkefna, 18. september