Á Íslandi hefur megaleiðarkerfi (mega menu) sótt í sig veðrið eftir heldur rysjótta tíð undanfarin ár. Margir nýir vefir, m.a. hjá tveimur bönkum (Arion og Landsbanka), stóru háskólunum (HÍ og HR) og ríkisfyrirtækjum (Umhverfisstofnun og RSK) hafa veðjað á megaleiðarkerfið. Það hefur klárlega marga kosti en í því felst einnig nokkur hætta.

Jakob Nielsen telur að vel hannað megaleiðarkerfi geti verið góður kostur sérstaklega  í samanburði við hefðbundnar fellivalmyndir (drop-down menu). Annar sérfræðingur Jared Spool hefur meiri efasemdir um megaleiðarkerfi.

Umhverfisstofnun er með megaleiðarkerfi
Umhverfisstofnun er með megaleiðarkerfi

Kostir liggja í greiðu aðgengi

Byrjum á kostunum. Ofurleiðarkerfi opnar fyrir notandanum leið með einum smelli á helstu síður í þeim hluta vefsins sem er valinn. Ef leiðarkerfið er vel hannað getur þessi leið veitt skjótan aðgang að efni sem notandinn er kominn til að finna.

Ofurleiðarkerfið sparar einnig pláss á forsíðunni og gefur markaðsteyminu aukið pláss á forsíðunni, svo sem með risabanner (sem er kannski ókostur út af þekktri bannerblindu notenda).

Hættan felst í frelsinu

Hætturnar eru líka margar. Með tímanum hættir megaleiðarkerfi til að verða eins konar veftré og á endanum sér notandinn ekki lengur trén fyrir skóginum. Það er slæmt því á vefnum eru sum verkefni mikilvægari en önnur.

Megin hættan við megaleiðarkerfi, að mínu mati, er sú að það veitir of mikið frelsi. Það kann að hljóma sem þversögn en frelsið er vandmeðfarið. Okkur hættir  til að bæta við síðum án þess að verða þess vör. Með megaleiðarkefi er hætta á að við töpum aganum sem er svo mikilvægur á vefnum. Að fókusera stöðugt á hver mikilvægustu verkefnin eru og setja þau í forgang.

Margir muna eftir því þegar þorri vefja byggði á lóðréttu leiðarkerfi. Þá voru engin takmörk á því hve halinn (leiðarkerfið) gat orðið síður. Allir hagsmunaaðilar í fyrirtækinu fengu sína síðu og allir ánægðir ekki satt? Æ nema viðskiptavinurinn, hann tapaði. Og það er líka hættan við megaleiðarkerfið.

Lítil verkefni dreymir um að verða stór

Þegar litlu verkefnin á vefnum þínum fara að sofa á kvöldin þá dreymir þau um að vakna sem stór verkefni*. Á vef með öguðum vefstjóra sem sættir sig við að takmarka leiðarkerfi sitt við breidd vefsins á litla verkefnið litla möguleika á að verða stórt þegar það vaknar. Það þarf að verðskulda það og vinna fyrir því.

Þegar við eigum nánast ótakmarkað rými til að bæta við nýjum síðum verðum við löt. Við nennum síður að spyrja hvers vegna? Við nennum síður að velta heitum á síðum fyrir okkur, hafa þau stutt og lýsandi því nóg er plássið.

Agi og fókus eru ákaflega mikilvægir þættir í starfi vefstjóra. Megaleiðarkerfi slakar á aganum og fókus breytist í þoku. Hafið þessa þætti í huga áður en þið ákvörðun um að taka ofurleiðarkerfi í notkun. Treystið þið ykkur til að halda í agann og standa fast á aðalatriðunum?

Amazon gafst upp á megaleiðarkerfi
Amazon gafst upp á megaleiðarkerfi

Hjarðhegðun Íslendinga

Amazon hefur notið gríðarlegrar velgengni á vefnum. Þeir prófuðu megaleiðarkerfi fyrir sex árum en bökkuðu út úr því. Eigum við að draga lærdóm af því? Ekki nauðsynlega hægt að alhæfa neitt út frá því en kannski vísbending. Nóg gera þeir af rannsóknum.

Ég er efins um nytsemi megaleiðarkerfis en fyrst og síðast vara ég við hættunni á að aginn og fókusinn tapist sem hið hefðbundna lárétta leiðarkerfi veitir okkur.

Umfram allt prófið og prófið aftur. Forðist hjarðhegðun eins og okkur Íslendingum er svo tamt að fara í.  Þó samkeppnisaðilinn hafi valið þessa leið, verið ekki viss um að þessi leið henti ykkur.

Ég efast ekkert um að þessi fyrirtæki sem ég vísa í innganginum hafi gert umfangsmiklar prófanir og sannfærst að þeim loknum að þetta hafi verið rétt val. Spennandi verður að sjá hvort þau komist að sömu niðurstöðu og Amazon gerði um árið. Tíminn einn leiðir það í ljós.

 

* Gerry McGovern sagði þetta svo skemmtilega í erindi á ráðstefnu EuroIA í Róm

2 Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.