Í umræðunni um snjallsíma- og spjaldtölvuvæðinguna hefur lítið farið fyrir umræðu um efnið sjálft sem notendur sækjast eftir. Umræðan snýst að mestu um hönnun og forritun. Ráðstefnur eru haldnar um hvort eigi að smíða farsímavef, app (native eða mobile), skalanlegan vef (responsive) eða halda sig við hefðbundinn vef. En það er sjaldan rætt um það mikilvægasta, efnið sjálft!
Í glænýrri bók Karen McGrane Content Strategy for Mobile er tekið á þessu mikilvæga efni og ég ætla að gera að umtalsefni í þessari grein og mögulega fleirum síðar.
“Get your content ready to go anywhere because it’s going to go everywhere”
– Brad Frost
Google gleraugu og ísskápar
Í dag erum við upptekin af snjallsímum og spjaldtölvum. Við þurfum samt að horfa enn lengra því notendur eiga eftir að sækja efni af netinu í græjum sem við í dag getum vart ímyndað okkur hvernig munu virka eða líta út. Hvað með t.d. þessi Google gleraugu? Og hvað með ísskápana? Við þurfum að vera sérlega vinsamleg og jákvæð gagnvart framtíðinni og vera undirbúinn fyrir það sem er ekki einu sinni hægt að spá fyrir um.
Karen segir að við þurfum að temja okkur hugsun um “adaptive content” eða aðlagað efni. Þurfum að setja efnið okkar þannig fram að hægt sé að deila og dreifa því fyrir hvaða form sem er, bæði það sem við stjórnum og sem við stjórnum ekki. Jafnvel form sem er ekki enn búið að uppgötva.
Fram að þessu höfum við verið upptekin af því að láta tækin stjórna því hvernig upplýsingar við birtum og matreiðum þær. Það er nánast óvinnandi vegur, tækin eru svo mismunandi og erfitt fyrir okkur að sjá hvað bíður okkar á næstu árum. Í dag höfum við tölvur, spjaldtölvur, farsíma og snjallsíma. Við erum að kljást við ólík stýrikerfi, iOS og Android, erum með Kindle Fire og iPad, tölvupóst, SMS, Facebook og Twitter.
Látum efnið ráða för
Við getum ekki elt ólar við alla þessa ólíku miðla, form birtingar og stýrikerfi. Það er lífsins ómögulegt. Við þurfum að smíða módel fyrir efnið okkar sem virkar fyrir allar þessar birtingarmyndir segir Karen. Leggjum traust okkar á efni, í orðum, myndum og upplifun. Látum efnið ráða för, annað mun fylgja í kjölfarið.
Þegar við segjum að einhver sé með “mobile” tæki þá er það eina sem við vitum með vissu er að sá hinn sami er að nota tæki sem er ekki venjuleg tölva. Við vitum ósköp lítið hvað notendur sjá og hvernig þeir bregðast við.
Hvernig eigum við að skipuleggja efni ef við vitum ekki hvernig notandinn ferðast um og tekur ákvarðanir? Enn mikilvægara, hvernig vitum við hvaða efni viðkomandi vill fá þegar við vitum ekkert um samhengið?
Svo virðist sem að margir kjósi að stinga höfðinu í sandinn. “Það er enginn sem myndi vilja gera þetta með mobile tækjum” er viðkvæðið.
Ef þú ert að velta því fyrir þér hvort þú þurfir að fjárfesta í að koma efninu þínu á mobile, hættu að vonast til að þú þurfir þess ekki. Fyrsta spurning: Ertu með vef? Þá þarftu að koma efninu þínu á mobile tæki. Við þurfum ekki að ræða það frekar.
Margir auglýsendur flaska illa á því þegar þeir auglýsa vöru eða þjónustu þá er oft vísað á efni sem styður ekki mobile tæki. Það er sóun á auglýsingafé.
Samkvæmt gögnum frá Readability þá lesa notendur meira í snjallsímum en á tölvu og merkilegt nokk líka á spjaldtölvum. Gögn frá mars og apríl 2012 sýna að meðaltími sem lesendur verja í lestur á greinum á snjallsímum er lengri en við lestur á bæði tölvum og spjaldtölvum.
Dugar léttútgáfa?
Er hægt að komast upp með að bjóða upp á farsímavef með sýnishorni af hefðbundna vefnum þínum? Einhvers konar léttútgáfu? Nei það er ekki lengur í boði, segir Karen. Notendur vilja fá upplýsingar sem þeir sækjast eftir á því tæki sem þeir nota hverju sinni.
Það er ekki hægt að áætla að notendur sem eru með spjaldtölvur séu uppi í sófa, hafi það huggulegt og í öðrum stellingum en notendur með venjulega tölvu. Snjallsímanotendur eru ekkert endilega á ferðinni heldur. Snjallsíminn getur vel verið í raun eina “tölvan” á heimilinu þar sem þeir treysta á að geta sótt upplýsingar af netinu.
Fólk notar með öðrum orðum hvaða tæki sem er hvar sem er og í hvað samhengi sem er. Við getum ekki dregið ályktanir af því hvað notandinn vill út frá þeirri einu staðreynd að hann er með minni skjá.
Ekki lúxus heldur krafa
Fyrir stóran hluta notenda í þróunarlöndum þá er farsíminn eina leiðin til að tengjast netinu. Þetta er líka þróun í hinum vestræna heimi þar sem stór og vaxandi minnihluti notenda eru aðeins með mobile tæki til að tengjast netinu. Samkvæmt gögnum Pew Internet frá júní 2012 þá er 31% notenda í Bandaríkjunum annað hvort eingöngu eða nánast alltaf að tengjast netinu með mobile tæki og þessi tala fer hækkandi.
Ef efnið þitt birtist ekki á litlum skjá þá er efnið þitt í raun ekki til gagnvart þessum vaxandi hópi netnotenda. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er fullt af fólki sem er á þeirri skoðun að efni fyrir mobile tæki sé bara lúxus (“nice-to-have”), eitthvað sem megi skoða eftir að hafa fjárfest enn á ný í endurhönnun “hins eina sanna” vefs.
Þetta fólk hefur rangt fyrir sér. Að koma efni til skila fyrir mobile tæki er ekki eitthvað sem má bíða seinni tíma. Þetta er nauðsyn. Ekki lúxus. Þetta er krafa.
Samkvæmt rannsókn Pew Internet þá hafa 86% af snjallsímanotendum notað símann sinn til að finna upplýsingar, hvort sem það var til að leysa vandamál, leysa ágreiningsefni, ná í nýjustu upplýsingar t.d. varðandi umferð eða íþróttaúrslit, eða til að taka ákvörðun um hvert eigi að sækja sér þjónustu t.d. á veitingastað. Ef þú vefengir þessar tölur, skoðaðu þá eigin leitarfærslur á símanum þínum. Þú hefur örugglega verið að leita að alls kyns upplýsingum og þjónustu með snjallsímanum þínum. En ekki bara verið að leysa eitt afmarkað verkefni.
Láttu notandann ráða för
Almennt erum við skelfilega léleg í því að spá fyrir um það sem notendur sækjast eftir. Jafnvel þó við búum yfir miklu magni upplýsinga þá er líklegt að við drögum rangar ályktanir um hvað eigi að birta og hvað megi fela. Að sérsníða upplýsingar gagnvart tilteknum hópum notenda er varasöm leið og stríðir í raun gegn afar mikilvægu prinsippi í notendavænni hegðun þ.e. að leyfa notandanum að ráða för.
Þrátt fyrir þetta er rík tilhneiging til að ákveða hvað það er sem notendur þurfa á að halda í snjallsímum og spjaldtölvum. Vitaskuld eigum við að leggja megin áherslu á topp verkefnin sem notendur eru komnir til að leysa og gera þau sem aðgengilegust. En við getum ekki leyft okkur að birta aðeins lítinn hluta af upplýsingum á vefnum okkar fyrir mobile tæki. Komumst ekki upp með það.
Ef við viljum áreiðanlegur upplýsingar um hvernig notendur hegða sér á mobile tækjum þá þurfum við fyrst að koma öllu efninu okkar á þangað, segir Karen. Aðeins þá getum við áttað okkur á því sem þeir hafa áhuga á að sækja, hvenær þeir vilja það og hvernig þeir vilja fá það matreitt. Þangað til erum við aðeins að geta okkur til um hegðunina.
Vertu ekki viss um að þú getir hannað fyrir fólk á ferðinni vegna þess að notendur eru að nota tækin hvar og hvenær sem er.
Þú tekur ekki ákvörðun um hvaða tæki notendur koma til með að nota til að sækja þínar upplýsingar. Þeir gera það sjálfir.
Aldrei neyða notendur til að fara á hefðbundna vefinn fyrir efni sem þeir eru að leita að á mobile tækjum.
Við verðum að forðast að búa til mismunandi efni fyrir mismunandi tæki og miðla. Það er dýrt og mikil hætta sem felst í ósamræmi í upplýsingum. Framtíðin liggur í aðlöguðu (adaptive) efni. Efni sem er sveigjanlegt, getur birst í hvaða formi og skjáupplausn sem er. Hver er lykillinn að því? Það er að hafa betra skipulag.
Meira um efni þessarar bókar síðar.