Paul Boag hristi rækilega upp í umræðu um nytsemi leitarvélabestunar (SEO) með grein sem birtist hjá Smashing magazine í desember. Ég hef áður fjallað um þetta efni á sömu nótum og Paul gerir og fagna því þessari grein.
Þar varaði Paul við agressívri leitarvélabestun og riddurum hennar. Óhætt er að segja að sérfræðingar í markaðssetningu á netinu hafi farið hamförum gegn þessari grein og persónunni Paul Boag, sem er slæmt mál.
Megin inntakið í grein Pauls er hvatning til vefstjóra að einblína á efni vefsins og hönnun. Fjárfesta í því í stað þess að kaupa ráðgjöf frá SEO sérfræðingum.
Það er ekki svo að Paul telji að aðferðir þeirra virki ekki, þ.e. að koma efni á vef framarlega í leitarvélar heldur að þetta er alltaf skammtímalausn. Eins og að pissa í skóinn sinn. Notalegt í byrjun en síðan kemur hrollurinn og árangurinn er frekar dýru verði keyptur.
Það er miklu mikilvægara að fjárfesta í góðri vefhönnun og gæðaefni. Það skilar mun meiri ávöxtun. Höfum hugfast að við eigum alltaf að skrifa fyrir notendur en ekki leitarvélar.
Kannski er hugtakið leitarvélabestun versti óvinur þeirra sem kenna sig við markaðssetningu á netinu. Við eigum ekki að besta neitt fyrir leitarvélar heldur einblína á að besta efni vefsins fyrir notendur og markmið fyrirtækisins.
Fjárfestum í efni og skrifum fyrir vefinn. Það skilar árangri til langs tíma.