Ég hef lengi álitið óþolinmæði einn af mínum helstu löstum og þeir sem eru mér nákomnir jánka því örugglega. En með árunum hefur mér orðið ljóst að líklega er óþolinmæðin helsta ástæðan fyrir langlífi mínu á sviði vefstjórnunar. Hvernig má það vera?
Á yngri árum kom fljótt í ljós að dund eins og flugmódelasmíði með ítarlegum leiðbeiningum, smáatriðum og óbilandi þolinmæði yrði seint mín sérgrein þegar út í lífið væri komið (þó aukasett af þumalputtum hafi ekki heldur hjálpað).
Ég þoli ekki skrifræði
Skrifræði á illa við mig. Aukin ferlavæðing innan fyrirtækja, sem er stundum kölluð gæðastjórnun, á ekki sérstaklega vel við mig þó ég hafi auðvitað líka vissan skilning á þeim fræðum. Ég verð óþolinmóður.
Það þarf ekki hundrað manns til að koma að einni ákvörðun hugsa ég, halda ótal fundi til að komast að ákvörðun og kalla svo til aukafundi til að ræða hvort ákvörðunin sé örugglega rétt. Við þurfum ekki að vera kaþólskari (!) en Svíar.
Ég skil heldur ekki hvernig það getur tekið að jafnaði um 2,5 ár að smíða einn innri vef (skv. Nielsen Norman Group). Að 30 mánuðum liðnum þá hlýtur að vera komin þörf á að skrifa nýja kröfulýsingu og byrja upp á nýtt!
En einhver þarf að fóðra skrifræðisdýrið og stórfyrirtæki úti í heimi standa þar sína plikt. Ég man eftir því frá stuttum tíma mínum hjá PricewaterhouseCoopers að ferli við smíði á nýjum vef tók um 3 ár. Þegar hann fór loks í loftið þá lifði hann líklega ekki í nema eitt til tvö ár. Hvílík synd og sóun.
Gengisfellum skoðanir
Með aldrinum verðum við þroskaðri og sumir segja vitrari. Eina lexíu hefur þroskinn kennt mér og það er að ég veit ekki allt best. Skoðanir hafa mér allltaf þótt kærar, hafa ákveðnar skoðanir og hrinda hlutum í framkvæmd. Þannig kláraði ég mörg vefverkefni áður fyrr, kviss, bang, búmm. Út með vefinn og látum fólki líka vel við hann var mottóið.
Hér hef algjörlega játað mig sigraðan hvað eigin skoðanir varðar. Þær eiga algjörlega rétt á sér auðvitað en koma engan veginn í veg fyrir staðreyndir og mælingar. Þær fáum við á vefnum með því að rannsaka hegðun notenda eins og ég hef margtuggið í mínum skrifum.
En mun slík rannsóknarvinna ekki seinka öllum vefverkefnum og því gætu tvö og hálft ár bara verið eðlilegur tími? Nei og aftur nei. Þessa vinnu er hægt að vinna snöfurmannlega og samhliða öðrum áföngum. Það sem tefur verkefnin oftar en ekki er endalaus hringur sem er farinn meðal hagsmunaaðila innan fyrirtækisins, ákvarðanafælni, skrifræði innan stærri fyrirtækja, léleg verkefnastjórnun, skortur á skilningi stjórnenda, takmörkuð fjárráð og skortur á umboði vefstjórans. Vefstjórinn verður að hafa bein í nefinu og umboð til að taka ákvarðanir.
Óþolinmæðin er dyggð
Óþolinmæðin hefur því í mínum huga fengið uppreisn æru. Hún ein hefur hjálpað mér að ljúka verkefnum sem ég hef byrjað á. Hún hefur gefið mér hugmyndaauðgi til að sneiða fram hjá of mörgum fundum. Hún hefur fært mér skilning á þörfum notenda. Óþolinmæði er því dyggð, a.m.k. fyrir vefstjórnendur!
Með þessum meðfædda “galla” hef ég því fengið í vöggugjöf mikla samúð og skilning á þörfum venjulegra vefrápara sem er klárlega meðal helstu dyggða vefstjórans. Því ber mér að vera þakklátur fyrir þennan annars augljósa galla í mínu fari.
Takk mamma!