Hvað á sundlaug skylt með vef? Ekki margt í fjótu bragði en þó er hreinlæti á báðum stöðum afar mikilvægt. Munurinn á þessum stöðum liggur m.a. í því að ef sundlaugin vanrækir þrifin til lengri tíma þá verður henni lokað en vefur getur fengið að mengast svo árum skiptir án þess að amast sé við því. Skoðum málið nánar.

Sundlaugin og hreinlætið

Leiðbeiningar um hreinlæti í sundlaug
Hreinlæti í sundlaug

Ímyndið ykkur sundlaug. Á daginn er einn starfsmaður í hlutastarfi sem reynir sitt besta til að halda utan um reksturinn. Hann er reyndar ekki aðeins baðvörður heldur sér um afgreiðslu, þrif og annað sem til fellur við reksturinn.

Baðverðinum er annt um laugina og hreinlæti er þar efst á blaði. Hann veit að orðsporið er í hættu ef slakað er á því. En þrátt fyrir góðan vilja þá skortir skilning hjá stjórnendum. Þeir treysta sér ekki til að ráða meiri mannskap og auka eftirlit.

Gestir eru orðnir þreyttir á stuttum afgreiðslutíma og hafa óskað eftir því að komast í laugina á öllum tímum. Sundlaugarstarfsmaðurinn er þjónustulundaður og vill hafa viðskiptavini ánægða. Hann lætur undan og gefur fastagestum lykil að lauginni.

Vandamálið er að þessir gestir koma stundum beint úr sveitinni eða illa þefjandi eftir sveittan vinnudag. Það er enginn til að amast við því þó sturtunni sé sleppt þegar þráin eftir slökun verður skynseminni yfirsterkari.

Þrátt fyrir hæfilegt magn af klór þá fer fljótlega að bera á því að þrifnaði er ábótavant. Sumir gestir hætta að venja komur sínar af þeim sökum og orðsporið bíður hnekki. Þetta endar ekki nema á einn veg. Heilbrigðiseftirlitið lokar lauginni.

Þetta ástand viljum við varla?

Vefurinn og hreinlætið

Ímyndið ykkur núna vef. Við hann starfar vefstjóri í hlutastarfi, sinnir jafnframt markaðsmálum og tilfallandi störfum á skrifstofunni sem er jú íslenskur veruleiki.

Vefstjóranum er annt um vefinn og reynir eftir megni að halda honum í góðu horfi. Hann er þjónustulundaður og afgreiðir beiðnir hratt og vel um innsetningu á nýju efni. Vegna tímaskorts gefst honum ekki færi á að yfirfara efnið og flest fer í birtingu óbreytt.

Álagið eykst, vefstjórinn annar ekki öllum beiðnum. Starfsmenn biðja um aðgang að vefumsjónarkerfinu. Hann lætur undan. Innan tíðar eru fjölmargir í fyrirtækinu komnir með aðgang án þess að fá tilskilda þjálfun. Stjórnendur sýna málinu lítinn skilning, þeir hafa jú samþykkt kaup á kerfi til að auðvelda innsetningu efnis. Hvað vill vefstjórinn meira?

Það er óþarfi að fara lengra með þessa samlíkingu. Þetta endar með ósköpum. Vefurinn mengast með hverjum degi sem líður. Gestir á vefnum finna á endanum óþefinn og heimsóknum fækkar. Þetta er veruleikinn á mörgum vefjum og ekki síst innri vefjum.

Efnismaðurinn kemur til bjargar

Það er engin skyndilausn á þessu vandamáli. Þetta er uppeldis- og menningarlegt verkefni. Ég skrifa greinar um mikilvægi efnis á vef, rek áróður fyrir því að mestu verðmætin á hverjum vef liggja í efninu og hamra á góðum reglum við skrif fyrir vefinn.

Við erum komin nokkur hænuskref í rétta átt en það er þörf á viðhorfsbreytingu. Bæði í vefbransanum sem og inni í fyrirtækjum.

Í laugunum höfum við leibeiningar um hreinlæti fyrir augunum og þær eru sem greyptar í huga flestra Íslendinga. Það er ein af ástæðunum fyrir því að flestar laugar eru ágætlega þrifalegar.

Meðfylgjandi mynd af Efnismanninum er mín viðleitni til að bæta þrif á vefnum. Hann er hér í sinni fyrstu útgáfu og eins og önnur sköpunarverk á eftir að þróast. Mér finnst að hann mætti síðar t.d. fá háf til að þrífa óæskilegt efni sem kann að fljóta á yfirborðinu.

Efnismaðurinn berst fyrir bættum vef. Fylgið leiðbeiningum hans um hreinlæti. Verið þó fyrst viss um að einhver þörf sé fyrir efnið áður en þið setjið það inn.

 

Efnismaðurinn - leiðbeiningar um hreinlæti á vef
Efnismaðurinn berst fyrir bættum vef.
Teikning: Dagur Sölvi Sigurjónsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.