Vefir flokkannaÞað eru innan við tvær vikur til kosninga og flokkarnir því flestir komnir á fleygiferð. Í þessari grein skoða ég hvernig framboðin nýta vefi og samfélagsmiðla í baráttunni. Hafa þau fólk innan sinna raða sem skilur vefinn og nýta möguleika hans? Hversu öflug eru framboðin á Facebook og Twitter? 

Flokkarnir eiga án vafa eftir að verja háum fjárhæðum í kosningabaráttuna en við höfum þó aðeins séð forsmekkinn af því sem koma skal. Ég má hundur heita ef stór hluti fjárhæðarinnar er vegna kostnaðar við vefmál og markaðssetningar á netinu, þá sérstaklega hjá “gömlu flokkunum”. Gamaldags markaðssetning virðist enn blífa með dýrum sjónvarps- og blaðaauglýsingum og dreifingu á prentuðu efni. Margir flokkar leggja traust sitt á leiðsögn auglýsingastofa sem sumar skilja vefinn ekki til fulls.

Helstu niðurstöður

Í stuttu máli þá er enginn flokkanna að útskrifast með láði í veffræðunum en helst að Framsóknarflokkurinn og Björt framtíð skilji vefinn, en þó ekki fyllilega. Sjálfstæðisflokkurinn er vinmargur á Facebook og Píratar eru öflugastir á Twitter.

  • Framsóknarflokkurinn er sprækur á vefnum en skilur samt farsímanotendur eftir í kuldanum.
  • Sjálfstæðisflokkurinn skilur vefinn ágætlega en bjóða upp á fremur stofnanalega upplifun.
  • Samfylkingin misskilur vefinn, flokkurinn virðist einfaldlega hafa gert vefútgáfu af bæklingi flokksins.
  • VG er með ágætan skalanlegan vef en leggja of mikla áherslu á fréttir.
  • Björt framtíð kann ágætlega á vefinn, fá prik fyrir skalanleika en mínus fyrir að skipta vefnum upp í sér vefi.
  • Píratar eru með einfaldan vef en maður hefði búist við meiru af flokki sem leggur megin áherslu á möguleika netsins.
  • Hægri grænir gera ekki greinarmun á aðalatriðum og aukaatriðum. Vefurinn er ofhlaðinn og lítt vefvænn.
  • Dögun og Samstaða eru með ágæta vefi en fremur efnisrýra.
  • Regnboginn er ekki með góðan vef á meðan Flokkur heimilanna er með efnilegan vef en vannýtta forsíðu.
  • Vefur Lýðræðisvaktarinnar gerir lítið fyrir flokkinn.
  • Átta framboð af tólf nota WordPress vefumsjónarkerfið.

Um úttektina

Þessi úttekt er vitaskuld gerð meira til gamans og ber að taka þannig. Ég skoðaði forsíðu vefjanna, auk yfirlits um frambjóðendur, og lagði mat á hvort þær endurspegli hlutverk og markmið vefsins.

  • Skjáskot af öllum vefjum voru tekin 13. apríl
  • Efni á vefjum rýnt 6. og 13.. apríl
  • Samantekt á virkni í samfélagsmiðlum tekin saman 6. apríl

Markmið á vef stjórnmálahreyfingar

Á hverjum vef eru tiltekin lykilverkefni sem verða að fá mesta athygli. Ég kannaði hvernig vefirnir ná að gera þeim skil. Ég gef mér að ákveðin grundvallaratriði verði að vera fyrir hendi á vef stjórnmálaflokks. Skoða þau út frá markmiðum flokksins, þörfum kjósenda og grundvallarupplýsingum sem hver vefur þarf að uppfylla. Samfélagsmiðlar eru mikilvægir í baráttunni, bæði til að eiga samtal við kjósendur og eins til að styðja við vefinn. Þess vegna lét ég tölfræði um sýnileika flokkanna á Twitter og Facebook fylgja með án þess að leggja frekara mat á frammistöðuna.

Eftirfarandi var skoðað:

  • Er listabókstafur framboðsins sýnilegur?
  • Hversu lifandi er vefurinn?
  • Er leit á vefnum? Nauðsynleg m.a. til að finna ákveðin atriði í stefnu.
  • Er augljóst hvernig hægt sé að styrkja flokkinn? Þurfa þeir ekki allir stuðning?
  • Er strax hægt að sjá hvernig má hafa samband (a.m.k. netfang)?
  • Er kynning á frambjóðendum og myndir birtar með?
  • Sjást helstu stefnumál á forsíðu?
  • Skalast vefurinn fyrir snjallsíma? (prófað í iPhone 5)
  • Er framboðið á Facebook og hve margir vinir?
  • Er framboðið á Twitter og hve margir að elta?

Flokkar í úttektinni

Alþýðuhreyfingin var ekki með í þessari samantekt þar sem um framboðið er aðeins með bráðabirgðavef og ekki heldur Húmanistaflokkurinn sem er aðeins með Facebook síðu. Fyrst og fremst vísa ég til töflunnar um hvernig vefirnir koma út en bæti við nokkrum athugasemdum um upplifun og niðurstöðu samantektarinnar.

Yfirlit

Tvö framboð hafa listabókstaf hvergi sjáanlegan á forsíðu vefsins (Dögun búin að bæta úr því 22.04). Aðeins 4 af 12 framboðum bjóða upp á skalanlegan eða farsímavænan vef. Liðlega helmingur býður upp á leit eða 7 af 12. Þrjú framboð nýta ekki vefinn til að leita eftir fjárstyrk. Öll framboðin birta netfang. Öll nema eitt birta lista yfir frambjóðendur. Aðeins 5 framboð birta atriði úr stefnunni á forsíðu. Öll framboðin eru á Facebook en 5 eru ekki á Twitter eða vekja a.m.k. ekki athygli á því á forsíðu vefsins. Öll framboðin voru með ágætlega uppfærða vefi en tvö framboð voru ekki með fréttir á forsíðu.

Flokkur – Listabókstafur X-? Mobile Leit Styrkur Netfang Frambjóðendur Stefna Facebook Twitter
 Björt framtíð – A  Já  Já  Nei  Já  Já  Já  Sér vefur  4111  296
 Dögun – T  Já  Já  Já  Nei  Já  Já  Undirsíða  2340  11
 Flokkur heimilanna – I  Nei  Já  Nei  Nei  Já  Nei  Já  368  x
 Framsóknarflokkur – B  Já  Nei  Já  Nei  Já  Já  Undirsíða  2994  283
 Hægri grænir – G  Já  Nei  Já  Já  Já  Já  Já  949  9
 Lýðræðisvaktin – L  Já  Nei  Nei  Já  Já  Já  Já  1646  x
 Píratapartýið – Þ  Já  Nei  Nei  Já  Já  Já  Undirsíða  3105  530
 Regnboginn – J  Já  Nei  Já  Já  Já  Já  Undirsíða  409  x
 Samfylkingin – S  Já  Nei  Nei  Já  Já  Já  Já  2202  181
 Samstaða – C  Já  Nei  Já  Já  Já  Já  Já  471  x
 Sjálfstæðisflokkurinn – D  Já  Nei  Já  Já  Já  Já  Undirsíða  7421  247
 VG – V  Já  Já  Já  Já  Já  Já  Undirsíða  1042  x

Björt framtíð
Á margan hátt er Björt framtíð (BF) að gera bestu hlutina á vefnum. Flott vefhönnun, skalanleg og með aðalatriðin á hreinu nema að einu leyti. Hvers vegna að setja stefnumálin á sér vef og málefnastarf á þann þriðja? Vantaði pláss á aðalvefnum eða finnst mönnum bara svo gaman að vefa? Við þetta tapast fókus og það þarf að leita á marga staði til að sjá heildarmyndina.

Dögun
Nútímalegur vefur en farsímaútgáfa er þó brotin. Risabanner á forsíðu en skýr mynd af helstu frambjóðendum og stefnunni. Vantar enga peninga í kassann? Hvergi sjáanlegt að hægt sé að styrkja framboðið. Eru virk á Twitter en vantar fólk til að fylgjast með.

Flokkur heimilanna
Af hverju er listabókstafurinn í felum á annars ágætum vef og fallega hönnuðum? Forsíðan gefur ekki tilefni til að mikið líf sé inni á vefnum. Vefurinn er skalanlegur og efnilegur en vannýttur.

Framsóknarflokkur
Flokkurinn hefur ráðið fagfólk til að sjá um vefinn og eru með virkan vefstjóra. Það hefur þó gleymst að taka tillit til stórs hóps farsímanotenda. Vefurinn er léttur og lifandi með skýrt afmarkaða þætti og virðingarröð en fá mínus fyrir að dagsetja ekki fréttir. Engin æpandi fjárþörf hér því ekki er sýnilegt hvernig styrkja megi flokkinn.

Hægri grænir
Fremur viðvaningslegur vefur. Allt of mikið efni á forsíðu og illa skipulagt. Góðra gjalda vert að hafa mikið að segja en skilaboðin tapast því miður í orðaflaumi. Erfitt því að skanna vefinn og átta sig á aðalatriðum. Fréttir ekki sjáanlegar nema á pdf formi. Smátt er smart er eitt af slagorðum flokksins, það hefði mátt hafa í heiðri í framsetningu efnisins.

Lýðræðisvaktin
Tætingslegur vefur sem virðist ekki hafa verið teiknaður mjög skipulega upp. Ýmislegt efni að finna en leiðarkerfið og skipulag á forsíðu ruglingslegt. Eins og það séu tvö leiðarkerfi, annars vegar á hefðbundnum stað efst á vefnum og síðan einnig fyrir miðju undir myndbandinu. Engar fréttir að finna á forsíðu sem gefur manni tilfinningu um að takmarkað líf sé á vefnum.

Píratapartýið
Ég hefði búist við að sjá Píratapartýið með aðgengilegan vef fyrir öll tæki enda áherslur þeirra mjög svo á netið og möguleika þess. Hafa flest aðalatriði í lagi nema hvað stefnumál sjást hvergi á forsíðu fyrir utan tengil á undirsíðu. Mikil áhersla er á fréttir og mikilvægt pláss tekið í fréttir af alþjóðastarfi Pírata.

Regnboginn
Hér er vefur sem minnir á gömlu FrontPage vefina. Undarlegt leiðarkerfi sem er tvítekið og forsíðan afskaplega vannýtt. Viðvaningslegur vefur en að ósekju hefði mátt leita að betra WordPress sniðmáti sem hefði ekki þurft nein fjárútlát.

Samfylkingin
Auglýsingastofan virðist hafa fengið að útfæra bækling flokksins beint yfir á vefinn. Forsíða vefsins er ríkulega myndskreytt og nýtir myndbönd til að koma stefnunni á framfæri sem er góðra gjalda vert. Vandamálið er að allt efnið lítur út eins og auglýsing og því tapast trúverðugleikinn. Notendur vilja ekki þannig framsetningu og hætt við að skilaboðin á forsíðu fari fyrir ofan garð og neðan. Athygli vekur að sjö myndir eru af formanninum á forsíðu.

Samstaða
Frekar meinlaus og ágætlega hannaður vefur. Ekki mikið líf á honum og líklega skortir framboðið þrótt enda kannanir ekki að hjálpa.

Sjálfstæðisflokkur
Út frá faginu þá er hér ágætlega hannaður og skipulagður vefur. Hann er þó fjarri því að vera áhugaverður, minnir nokkuð á íhaldssamt fyrirtæki eða stofnun. Hann uppfyllir allar helstu kröfur fyrir utan að vera ekki farsímavænn.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð
Vefurinn er fagmannlega gerður að flestu leyti. Það er of mikil áhersla á fréttir og of þéttur texti á forsíðu. Hefði mátt nýta betur í að skýra stefnu og kynna frambjóðendur. Vefurinn skalast fyrir farsíma en forsíðubannerinn gerir það þó ekki. VG virðist ekki vera á Twitter ef marka má forsíðuna. Tilfinning mín er að frambjóðendum líði ekki sérstaklega vel fyrir framan myndavélar.

3 Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.