Ég hef tekið saman 15 atriði sem ég hef sannfæringu fyrir í vefmálum. Þau ríma ágætlega við þau 15 ár (og reyndar einu betur) sem ég hef verið í vefbransanum.
Eitt af því sem er svo gott við að eldast er reynslan og að geta deilt henni með öðrum. Ég áttaði mig á því fyrir örfáum árum að kennsla og þekkingarmiðlun væri eitthvað sem ætti býsna vel við mig.
Það var að hluta til af illri nauðsyn að ég byrjaði að kenna 2009 (var lágt launaður ríkisstarfsmaður með stökkbreytt húsnæðislán). Önnur ástæða var löngunin að endurnýja vefþekkinguna og besta leiðin til þess er að miðla og kenna.
Ég sökkti mér því í lesefni, keypti nýjustu bækurnar, gerðist áskrifandi að póstlistum og vann samantekt úr því sem mér fannst bitastæðast, birti á vefnum mínum og setti fram í kennsluefni fyrir nemendur.
Önnur frábær leið til að koma skipulagi á þekkingu, hugsanir og reynslu er að halda fyrirlestra. Hvað stend ég eiginlega fyrir í vefmálum? Hvað hef ég sannfærst um? Hvað hefur reynslan kennt mér?
Ég bræddi þetta með mér nýlega og lét hugann reika eins og ég geri gjarnan þegar ég er úti með börnin mín, í sundi og við eldhússtörfin. Þetta er ekki tæmandi listi en dregur ágætlega saman leiðarljós mín í vefmálum. Tenglar í tengdar greinar fylgja með.
15 sannfæringar
- að vefir þurfi stefnu
- að vefir þurfi að fá að mala
- að vefstjórar þurfi meiri þjálfun og völd
- að fúnksjón sé ofar fagurfræði
- að innri vefir þurfi meiri ást og umhyggju
- um nauðsyn þess að leita sér stöðugt nýrrar þekkingar
- um mátt notendaprófana
- um nauðsyn þess að hafa samúð með notendum
- að vefir eigi að vera aðgengilegir öllum
- að það megi einfalda og minnka alla vefi
- að við eigum að einblína á aðalverkefnin
- að allir vefir eigi að vera snjallir
- að það geti ekki allir orðið vefhönnuðir
- að hreinlæti á vef sé höfuðatriði
- að orð skipta máli
2 Comments