Fólk segir ósatt á Facebook. Veruleikinn er fegraður, foreldrar eru slæmir en þeir sem eru í fæðingarorlofi eru verstir. Þetta varð mér tilefni til bréfaskrifta til Facebook sem ég býð ykkur að hnýsast í.
Kæra Facebook
Við höfum verið vinir í nærri 6 ár og ég skammast mín fyrir að hafa ekkert látið í mér heyra fyrr. Tilefni þessa bréfs er frekar leiðinlegt en sá er vinur er til vamms segir.
Málið er nefnilega að ég hef fullvissu fyrir því að fólk segi ósatt á Facebook. Fólk sem ég tel til vina minna.
Leyfðu mér að útskýra.
Mögnuð afrekaskrá foreldra og barna
Daglega les ég um afrek vina minna. Meirihlutinn virðist vera afreksfólk á sviði íþrótta, matargerðar og lista. Annar hver maður er í þríþraut, fjórði hver í járnkarli, svo eru líklega ekki nema 3-4 fjöll á Íslandi sem þessir vinir mínir hafa ekki klifið. Maturinn og framsetningin á honum er svo hrein og klár list enda hipsterar í hópnum.
Það virðast lítil veðrabrigði vera á klakanum, alltaf sól og hitamet falla. Ég las nýlega hjá a.m.k. 5 vinum að þeir væru í 30 gráðum plús. Já vel að merkja á Íslandi. Þettta segir fólk blákalt þegar ég veit að hæstur hiti á Íslandi hefur örsjaldan farið yfir 30 gráður.
Svo eru það börnin. Jeminn. Þá fyrst fer manni að líða illa. Meðaleinkunn (skv. lauslegri samantekt) barna „vina“ (gæsalappir, ég veit) minna er í kringum 9,3. Ég er ekki að tala um danska kvarðann.
Þessi börn hlaupa víst 100 metrana undir 10 sek, synda kílómetrann á örfáum mínútum, skora að meðaltali þrennu í hverjum fótboltaleik og eiga flestar stoðsendingar í körfuboltanum á Íslandi.
Afrekaleysi minna kríla er nánast óbærilegt fyrir mig og mína konu. Á hverjum degi birtast stöðufærslur þar sem ómálga börnin láta hvert gullkornið á fætur öðru falla. Þau eru meira og minna altalandi fyrir eins árs aldur, setja saman setningar sem fullþroskaður rithöfundur gæti verið stoltur af um 2ja ára aldur og virðast fæddir snillingar.
„Afrek“ í garðinum sem ekki varð
Í sumar hef ég markvisst reynt að kreista úr þriggja ára syni mínum svona gullkorn. Hann segir margt sniðugt strákurinn, það vantar ekki. En þegar ég legg þau orð við vegið meðaltal setninga barna „vina“ minna þá duga þau ekki og myndu aldrei fá nein læk að marki. Nema ég tæki upp á að ýkja. Ætli hinir geri það?
Svo gerðist það einn laugardaginn.
Ég sat innni í stofu og var að reyna að fylgjast með sjónvarpsfréttunum í gegnum orgið í minnstra krílinu (útvarpsstjóra sé lof fyrir textaðar fréttir). Þá heyrðist:
„Mamma, pabbi… sjáiði, sjáiði!! Sjáiði hvað ég gerði! Komiði…“
Mamman var fyrri af stað og kom skælbrosandi til baka. Þú verður að sjá þetta Sigurjón. Ég var farinn að skrifa inngang að næstu stöðufærslu í huganum, hjartað barðist, stoltið og feginleikinn yfir því að loksins, loksins fengi ég að jafna eða jafnvel toppa afrek barna „vina“ minna á Facebook.
„Ég kúkaði í garðinn, ég kúkaði…. alveg eins og Emma (hundurinn)“.
Vonbrigðin voru nánast óbærileg. Stöðufærslan sem ég var kominn með í kollinn lak niður eins og bráðið smjör. En hlógum svo í laumi. Vildum ekki særa stolt 3ja ára sonarins sem er nýhættur á bleyju.
Það var þó greinilegt af móðurinni að dæma að þetta „afrek“ réttlætti stöðuuppfærslu á hennar síðu. Ég trúði þessu varla, gat ekki lækað eða deilt. Kannski eru hennar vinir (sem eru reyndar margir sameiginlegir) ekki með jafn mikil afreksbörn og mínir.
En hvað um það. Sonurinn hefur eftir þetta kúkað einu sinni (svo vitað sé) í garðinn og pissar helst ekki annars staðar. „Alveg eins og Emma“. Vonandi gengur þetta yfir, ég á nógu erfitt með að hreinsa eftir hundinn.
Foreldrar í fæðingarorlofi eru verstir
Kæra Facebook, fyrirgefðu hvað ég er langorður en vona að þú fyrirgefir mér því þetta er uppsafnað. Og það versta á eftir að koma. Taktu þér pásu ef þú þarft.
…
Jæja olræt. Þetta afreksfólk og frásagnir foreldra af afburðabörnum er ekki það versta. Foreldrar í fæðingarorlofi eru skelfing og fara út yfir allan þjófabálk um sín afrek.
Ég er rétt að klára 3ja mánaða feðraorlof með yndislegu 9 mánaða dóttur minni. Svo er það 3ja ára pjakkurinn sem hefur verið síðastliðinn mánuð í sumarleyfi frá leikskólanun.
Sá fyrir mér þrjá mánuði í sól og nær-slökun. Jújú eitthvað myndi stelpan vaka á daginn en það yrði nú eitthvað lítið ef ég myndi þetta rétt og meðvitaður um afrekaskrá foreldra í fæðingarorlofi.
Setningar eins og „Skrifaði bók í fæðingarorlofinu“, „Stofnaði fyrirtæki meðan barnið svaf“ og „Forgjöfin aldrei lækkað jafn skarpt“ tók ég með mér í orlofið.
Hentaði mér líka ekkert smá vel. Ég var með hugmynd að bók, búinn að segja upp fína bankadjobbinu og farinn að leggja drög að eigin rekstri. En golfið er enn á 13 ára gömlum ís. Þetta var eins og yngra fólk segir „gargandi snilld“.
Verandi reynslubolti (44) ákvað ég að stilla væntingum í hóf. Líklega myndi ég ekki klára bókina í sumar en klárlega með drög tilbúin í yfirlestur. Og stofna fyrirtækið, smíða nýjan vef og leggja drög að skotheldu viðskiptaplani. Það held ég nú. Minnsta málið.
Játningar á síðasta degi feðraorlofs
Úff, angist, talsvert af töpuðum svefni og pirringur yfir sólarleysinu. Ekki stafkrókur á blað fyrir nýja bók. Ókei ég náði að komast til sýslumanns, skila aukatekjum í ríkissjóð fyrir stofnun einkafirma og leigja húsnæði! Afrek? Eh nei.
Kæra Facebook, ef þú ert hálfsofandi við lesturinn og hefur ekki séð samhengið þá skal það áréttað: Feðraorlof er full vinna og gott betur.
Dagurinn hefst oftar en ekki fyrir fyrsta hanagal og endar fyrir seinni fréttir í Sjónvarpinu ef heppnin er með. Þreyti ykkur ekki með smáatriðum. Dvöl í Hveragerði hefði svo verið nærtæk í ágúst ef ekki hefði komið til öflugur stuðningur frá fjölskyldunni í sumar.
Í dag er síðasti dagur minn í orlofinu, ég hef stórar efasemdir um að ég klári bókina fyrir miðnættið og nýi vefurinn verður að bíða a.m.k. fram í næstu viku.
En núna verð ég að játa.
Ég er að ýkja, kannski ekki ljúga. Ljótt að nota það orð, fyrirgefðu titilinn. Ég er búinn að vera ansi duglegur og stolið líklega fullmiklum tíma sem hefði betur verið varið í heimilishald og gæðastundir með skilningsríkri konu minni.
Ég er með nánast tilbúinn vef, kominn með fyrirheit um verkefni og þetta var reyndar bara ansi gott sumar þrátt fyrir sólarleysið.
Ég hefði aldrei viljað missa af því. Það sem gerist í lífi barns frá 6-9 mánaða er undur og hafa fengið að fylgjast með því í rauntíma er miklu stærra en forréttindi.
Og já Tinni minn, þú ert frábær! Þú verðskuldar bók um uppátæki þín. Skrifuð samt í einhverju öðru orlofi!
Rúsínan gleymist ekki. Firmað sem ég náði þó að stofna heitir Fúnksjón vefráðgjöf. Nýr vefur væntanlegur! Læk á það.
3 Comments