Í stuttri sögu vefsins á Íslandi hafa vefmál verið lengst af fyrir utan radar auglýsingastofa. Vefhönnun, forritun og vefgreiningu hefur yfirleitt verið sinnt af vefstofum eða einyrkjum. Hverju sætir þetta? Og hvers vegna virðist viðsnúningur vera að eiga sér stað núna?
Í dag dettur engum í hug annað en að viðurkenna að vefurinn og netið sé mikilvægasti snertiflöturinn við viðskiptavini. Það er á netinu sem fólk aflar sér upplýsinga um vörur og þjónustu, traust skapast og ákvörðun er tekin um kaup. Neytendur eru upplýstir. Treysta vinum og fjölskyldu mun betur en auglýsingum og markaðsefni sem er troðið upp á það.
Skilnaður að borði og sæng
Hvers vegna hefur aðskilnaður ríkt fram til þessa? Ástæðurnar eru að mínu mati fyrst og fremst þrjár:
[bra_list style=”colored-counter-list”]
- Vefurinn ekki tekinn alvarlega
Auglýsingastofur hafa í gegnum tíðina talið vefinn frekar léttvægan í markaðsstarfi. Eftirlátið hann „nördunum“ á meðan auglýsingastofurnar hafa sinnt „alvöru“ markaðssetningu þ.e. snertingu við viðskiptavini með auglýsingum í blöðum og sjónvarpi, bæklingum og öðru „offline“ markaðsefni. Þessi nálgun er það sem Seth Godin kallar truflunar markaðssetning (e. interruption marketing). Snýst um að trufla fólk, neyða það til að horfa eða lesa - Ill samrýmanleg menning
Á auglýsingastofum vinnur skapandi fólk, markaðssinnað, opið og hefur yfirleitt gaman af athygli. Í einu orði extrovertar. Tilraunir auglýsingastofa til að stofna nýmiðlunardeildir, ráða inn vefforritara, flash hönnuði (blessuð sé minning þeirra), vefhönnuði og sérfræðinga í stafrænni markaðssetningu hafa gengið brösuglega. Einstaklingar í þessum hópi eru frekar inn í sig, ekki spenntastir fyrir athygli og eiga lítið sameiginlegt með extrovertunum. Nördarnir hafa hvorki fundið sig verkefnalega né menningarlega. Hafa því leitað annað, stofnað vefstofur eða farið að vinna sjálfstætt. - Geta ekki allir orðið vefhönnuðir
Þriðja ástæðan er að það er ekki á færi allra grafískra hönnuða að verða vefhönnuðir. Auglýsingastofur hafa oft talið sig geta sinnt vefhönnun og falið sínu fólki vefverkefni. Það hefur gengið í einhverjum tilvikum en útkoman sjaldnast góð eins og ég hef áður rakið. Á endanum fer viðskiptavinurinn annað, leitar til sérhæfðra vefhönnuða sem skilja vefinn.
[/bra_list]
Í þessu skjóli hafa sprottið mjög vænlegar vefstofur sem allt í einu eru orðnar sætustu stelpurnar á ballinu. Nú er ekki seinna að vænna en að bjóða upp í dans.
Buddan og ÍMARK hafa áhrif
ÍMARK hefur staðið sig vel undanfarin misseri við að flytja inn fulltrúa nútíma markaðssetningar eins og Seth Godin og vefhönnuðinn Simon Collisson (sleppi því að minnast á aldraðan Kotler).
Þessir snillingar hafa ekki flutt nein ný sannindi enda ætti íslenskt markaðsfólk að þekkja skilaboð Godin um „permission marketing“ og að vefurinn sé ekki prent eins og Collisson hamraði á. En þeir hafa kannski hreyft við fólki og verið áminning.
Megin skilaboðin frá þeim eru: Hættið að trufla. Fáið leyfi í stað þess að troða ykkur upp á fólk. Veitið gagnlegar upplýsingar, deilið þekkingu, fáið traust og þá gerist eitthvað.
Kannski eru það áhrif frá þessum mönnum sem valda því að maður skynjar breytingar á markaðnum.
Veigameiri ástæða er þó líklega að auglýsingastofurnar finna það á eigin rekstri að viðskiptavinurinn er að færa sínar áherslur á netið og þar með sínar fjárfestingar í markaðsmálum. Enda löngu tímabært.
Ég er amatör í auglýsingafræðum en það þarf ekki skarpgreindan mann til að átta sig á að hefðbundin nálgun í markaðsmálum þar sem markaðssetning á netinu er innan við 10% af heildarfjárhagsáætlun er bara vitleysa. Sem ég held að reyndin sé ansi víða enn í dag.
Mikilvægasti markhópurinn er á netinu, ver drjúgum tíma á samfélagsmiðlum, vefnum, í öppum, fylgist með bloggi og leggur traust sitt á niðurstöður úr leitarvélum. Þessir miðlar eru í raun afgerandi snertifletir við mikilvægasta markhóp flestra fyrirtækja. Unga fólkið. Það les ekki blöð eða fylgist með dagskrá í útvarpi eða sjónvarpi.
Samlíking við kökur er markaðsfólki töm. Núna vilja auglýsingastofurnar eðlilega sneið af vefkökunni sem þær hafa ekki viljað baka. Þær leita því núna hófanna um samstarf við vefstofurnar sem er vel. Ekki síst fyrir viðskiptavini fyrirtækja.
Viðskiptavinir eiga skilið góða heildarupplifun
Það versta í þessum aðskilnaði í gegnum árin eru áhrifin á viðskiptavini. Þeir hafa liðið fyrir þetta. Fyrirtæki ná ekki að skapa nægilega góða heildarupplifun þar sem er oft gjá á milli upplifunar á vef og í annarri snertingu við fyrirtæki.
Með sífellt fleiri miðlum og snertiflötum við viðskiptavini skiptir heildarupplifunin miklu máli. Það er erfiðara að ná henni ef gjá er á milli vefstofu og auglýsingastofu.
Ef þú ert t.d. viðskiptavinur banka og færð sérdeilis góða þjónustu í útibúinu, hraðbankinn er besti vinur þinn, þú hringir daglega í þjónustuverið bara til að spjalla en færð svo lélega þjónustu í netbankanum þá getur heildarupplifunin verið neikvæð þrátt fyrir allt.
Sjáum svo til hvað haustið ber í skauti sínu. Verður okkur boðið í brúðkaup?
One Comment