Vefstjórar kannast flestir við kröfuna um að fyrirtækjavefir verði að vera lifandi. Vísasta leiðin til þess er að kalla eftir nýjum fréttum á vefinn og hafa þær áberandi á forsíðu. Þessi krafa kemur ekki frá notendum.

Fréttafíklar vilja vitaskuld vera vissir um að finna nýjustu fréttir þegar þeira fara inn á mbl.is eða visir.is. Ef um fyrirtæki eða opinbera stofnun er að ræða þá er ólíklegt að erindið sé að finna nýjustu fréttina. Hins vegar er gott að vita af því að þær megi finna á vísum stað. Erindi langflestra snýst um að leysa tiltekið verkefni.

Sjaldnast er því réttlætanlegt að láta fréttir fá mikið pláss á forsíðu vefs. Í hönnuninni þarf að vera skýr virðingarröð, forgangsröðun sem er byggð á gögnum. Greina þarf lykilverkefnin sem notendur eru komnir til að leysa.

Hvað segja gögnin um umferð á vefnum? Er líklegt að fréttir séu í efstu 10 sætum yfir mest sóttu síðurnar, topp 20 eða 30? Kannaðu þetta á eigin vef og skoðaðu um leið hvaða forgang fréttir fá á vefnum þínum.

Af því að allir aðrir gera það!

Megin ástæðurnar fyrir því að fréttir eru almennt plássfrekar á vef eru:

  • Innri þrýstingur um að vefurinn verði að vera lifandi
  • Upplýsinga- eða almannatengill stýrir vefnum
  • Af því að allir aðrir gera það

Þetta er mýta eða hefð sem erfitt er að vinda ofan af. En þó horfir til batnaðar. Í úttekt minni á nýjum íslenskum vefjum sá ég að fréttir eru á undanhaldi á forsíðu. Það er almennt minna efni á forsíðu vefja. Færri hlutir sem kalla á athygli og fókus er smám saman að færast á lykilverkefnin. Skynsemin er líklega að ryðja sér til rúms.

Við næstu endurhönnun vefsins er mikilvægt að greina umferðina og taka upplýsta ákvörðun. Hvað segja notendur? Hafið þið borið þetta undir þá og greint þeirra hegðun með notendaprófunum?

Ég er ekki að mælast til þess að taka fréttir alfarið út. Þær þurfa að vera aðgengilegar og ég er nokkuð viss um að 9 af hverjum 10 myndu rata beint í flokkinn „Um fyrirtækið“ í leiðarkerfi, sem er á langflestum vefjum, og finna fréttir þar þó þær séu ekki sýnilegar á forsíðu.

Gerðu bloggið sýnilegt

Það hjálpar upp á leitarvélabestun að hafa reglulega fréttir á vefnum, þ.e. ef þær eru vel skrifaðar og með þarfir notenda í huga. Það er frekar ástæða til að staðsetja bloggið á forsíðunni ef það er fyrir hendi. Advania birtir einu sinni í viku bloggfærslur um viðskiptaþróun, nýjungar í tækni, vörurnar og þjónustuna sem þeir bjóða. Það sama gerir t.d. Nova. Þettta er yfirleitt gagnlegt efni sem fær fólk til að lesa og skilar árangri í leitarvélum. Miklu frekar en gerilsneyddar fréttir sem oftar en ekki eru mærðin ein með ofnotkun á heiti fyrirtækisins. Prófið að lesa fréttatilkynningar frá stórum fyrirtækjum og teljið hversu oft nafn þess kemur fyrir í einni frétt.

Tökum dæmi af handahófi. Í fremur stuttri frétt Landsbankans kemur nafn bankans fyrir alls átta sinnum. Prófið að lesa þessa frétt upphátt. Gengur bara engan veginn upp ekki satt?

TM (Tryggingamiðstöðin) tók skynsama afstöðu þegar fréttir voru teknar út af forsíðu en birta blogg í staðinn. Það er áhugavert og ég er nokkuð viss um að engin kvörtun hafi borist frá viðskiptavinum.

Hver kannast ekki við fyrirsagnir á borð við þessar:

“Fjölsóttur fundur á vegum …stofnunar”

“Afkoma batnar þriðja árið í röð hjá … banka”

Hvaða líkur eru á að einhver nenni að skoða slíkar fréttir?

Það mun kosta átök að taka út fréttirnar

Í greiningu sem var gerð á vef bresks háskóla kom í ljós að innan við 1% af notendum vefsins skoðuðu fréttir. Þessar tölur koma ekkert sérstaklega á óvart en það er erfitt að vinda ofan af þessu og mun mjög líklega kosta átök að breyta fréttaáherslum á vefnum. Ekki síst vegna þess að stór hagsmunaaðili í fyrirtækinu er sannfærður um mikilvægi fréttanna (sem viðkomandi skrifar liklega flestar sjálfar) og blekkingarinnar um að vefurinn verði að vera „lifandi“.

Hættum að gera bara eitthvað á vefnum. Hönnum með gögnum og skynsemi. Fyrir notendur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.