Það er rétt um ár síðan ég óð út í djúpu laugina, hóf eigin rekstur og kvaddi vel launað starf í banka. Í þessari grein læt ég móðan mása um árið sem er liðið og reyni að svara eftirfarandi spurningum:

  • Var það áhættunnar virði að fara einn út í vefráðgjöf?
  • Hef ég náð að bæta íslenska vefheiminn?
  • Er ég orðinn ríkur?

Höfuðmarkmið að bæta íslenska vefheiminn

Það kann að hljóma klént en mitt stóra markmið var og er að bæta íslenska vefheiminn. Fá einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir til að skilja mikilvægi vefstjórans, að einfaldara sé betra en flókið og að vefurinn skipti máli. Þetta markmið hefur ekki náðst á einu ári og það var fjarri því að ég héldi það. En dropinn er farinn að hola steininn. Leiðir mínar að markmiðinu eru:

  • Blogg
  • Bókaútgáfa
  • Kennsla
  • Félagsstarf
  • Ráðgjöf

Þó svo að ég hafi ekki hafið störf sem óháður ráðgjafi fyrr en 1. ágúst 2013 þá var ég búinn að leggja inn í vefbankann nokkrum árum fyrr. Með kennslu og bloggi frá 2010 og reglulega síðan 2012 hefur rödd mín og skoðanir náð nokkurri athygli.

Með skrifum mínum og kennslu er ég fyrst og síðast að styðja við vefstjóra og aðra sem sinna vefumsjón. Þetta er hópur sem hefur fengið fjarskalega litla athygli en gegnir að mínu mati lykilhlutverki til að bæta íslenskan vefheim. Það er nauðsynlegt að hafa hönnuði og forritara til að smíða vefina en ef við höfum ekki fólk með sérþekkingu og reynslu til að stýra afurðinni og þróa hana áfram þá er til lítils unnið.

Stundakennsla og vefkristniboð

Er ég þá að sinna einhvers konar vefkristniboði? Já og nei, ég boða enga trú í vefmálum aðra en þá að einfaldara sé betra en flókið. Og með þau einföldu skilaboð í farteskinu verða til betri vefir.

Siðastliðin ár hef ég kennt fleiri námskeið en ég hef tölu á um allt það helsta sem vefstjórar þurfa að kunna skil á. Þessi námskeið hafa mörg hundruð einstaklingar sótt, sumir hafa líklega mætt á öll námskeiðin mín og ættu skilið einhvers konar vefdiplómu.

Ég hef kennt námskeið um vefritstjórn og starf vefstjórans í fjögur ár í Háskóla Íslands. Ég er í góðu sambandi við marga nemendur sem eru farnir að stíga sín fyrstu skref í vefstjórn, skrifa MA ritgerðir um vefstjórn, vefmiðlun og samfélagsmiðla. Ég hef fengið tækifæri til að kenna verðandi og starfandi blaðamönnum í MA námi í blaðamennsku við Háskóla Íslands og nú síðast að kynna vefinn sem miðlunarleið í hagnýtri menningarmiðlun við sama skóla.

Stundakennslan við HÍ gefur mér mikið þó launin séu smánarleg.

Ég hef haldið mörg sérsniðin námskeið í fyrirtækjum og stofnunum á mínu sviði og þannig oft náð til hóps sem telur sig ekki vera í vefstjórn en hefur snertingu við vefmál, ekki síst með skrifum og framsetningu efnis.

Háskóli Íslands á í mér sterka taug og Endurmenntun sama skóla á ég mikið að þakka. Þar hélt ég mitt fyrsta námskeið um starf vefstjórans í nóvember 2010 og samhliða setti ég upp bloggsíðuna funksjon.net. Enn þann dag í dag kenni ég námskeið hjá Endurmenntun.

Fyrirlestrar og félagsstarf

Ég hef ekki skorast undan því síðastliðin ár að taka að mér fyrirlestra um vefmál, vitaskuld alltaf frítt, og þannig náð til enn breiðari hóps með erindi mitt. Ég hef fengið tækifæri til að tala við stjórnendur, viðskiptafræðinga, yfirmenn í opinberum stofunum að ógleymdum stórum hópi vefstjórnenda og annarra sérfræðinga í vefgeiranum. Og einu sinni komst ég í gegnum nálaraugað á virtri erlendri ráðstefnu þar sem ég fékk tækifæri til að tengja áhugamál mitt, búddisma, við vefstjórnun.

Ég hef í þrjú ár gegnt formennsku í faghópi um vefstjórnun hjá Ský og unnið með góðu fólki í að rífa upp faglega umræðu með fyrirlestrum og ráðstefnuhaldi um flest svið vefstjórnunar og vefhönnunar. Jafnframt hef ég reynt að mæta á flesta viðburði á vegum SVEF og tekið þátt í umræðu þar um vefmál.

Ertu ekki á mála hjá Hugsmiðjunni?

Það er notalegt þegar einhver tekur eftir verkum manns og deilir sýn á betri vefheim. Ein af vefstofum bæjarins, Hugsmiðjan, hefur sl. miserri sýnt mínum hugmyndum og skrifum talsverðan áhuga. Það var því ekki tilviljun að ég leitaði til þeirra um samstarf með hugmynd mína að handbók vefstjórans. En þessa bók hafði mig lengi langað til að skrifa. Bókin góða sem hefur fengið heitið Bókin um vefinn er væntanleg fyrir lok þessa árs og ég bind talsverðar vonir við að hún muni enn styrkja vefstjóra í starfi og efla íslenskan vefiðnað.

Auk samstarfs um bókaútgáfu hef ég kennt námskeið í Vefakademíu Hugsmiðjunnar, sem er metnaðarfullt framtak einkaaðila, og skrifað gestablogg.

Þetta farsæla samstarf á sviði fræðslu með Hugsmiðjunni hefur skilið eftir þá hugmynd hjá mörgum að ég starfi aðeins með þeirri ágætu vefstofu. Samstarfið hefur í engu breytt nálgun minni eða óhæði í ráðgjöf. Ég elska alla og þjóna öllum!

Spurningarnar þrjár

Þá komum við aftur að spurningunum sem voru settar fram í byrjun.Við þeim hef ég svör.

Sigurjón í Þjóðarbókhlöðu
Vefráðgjafi vinnur hvar sem er, bókasafni, skrifstofu, kaffihúsi….

1. Var það áhættunnar virði?

Ég hef skipt nokkrum sinnum um starf á minni starfsævi og sem betur fer alltaf á eigin forsendum. Hef leyft hjartanu að ráða för. Ég tók fjárhagslega áhættu með ákvörðun minni að gerast sjálfstæður vefráðgjafi. Álagið hefur verið talsvert á mann með stóra fjölskyldu og ung börn. Hundrað prósent stuðningur frá eiginkonu skipti sköpum.

Fyrsta árið mitt sem ráðgjafi komu verkefnin til mín án fyrirhafnar. Ég mætti ekki á eina einustu sölukynningu og hafði yfrið nóg að gera. Svo bætti ég á álagið með þessari ríku þörf minni fyrir að blogga, taka að mér fyrirlestra, sinna félagsstörfum og bæta við mig kennslu. Þrátt fyrir að þessi aukaverkefni séu annað hvort ólaunuð eða illa borguð þá hafa þessir þættir þ.e. kennslan og skrifin skilað mér flestum verkefnum. Sérstaklega hefur bloggið gert mig sýnilegan og mér finnst ég vera talandi dæmi um hvernig megi ná árangri í Google. Auk kennslu og bloggs hafa meðmæli frá viðskiptavinum skilað mér mörgum viðskiptavinum.

Ég hef hafnað mörgum verkefnum. Einu sinni vegna þess að ég hafði vonda tilfinningu fyrir kúnnanum og nokkrum sinnum vegna þess að mér fannst að aðrir væru meiri sérfræðingar og þá hef ég vísað fólki áfram. Það er prinsipp hjá mér að taka ekki að mér verkefni þar sem minnar sérþekkingar nýtur ekki til fulls.

2. Hef ég náð að bæta íslenska vefheiminn?

Markmiðin með stofnun Fúnksjón vefráðgjafar voru háleit: Að bæta íslenska vefheiminn. Á fyrsta starfsári hefur náðst smá árangur að mínu mati.

Það er hægt og bítandi að aukast skilningur á því að undirbúningur og greining skipti máli í vefverkefnum. Ég finn að mín ráðgjöf nýtist líklega allra best í samskiptum við vefstofurnar. Kröfulýsingar sem ég vinn með mínum viðskiptavinum, þó þær séu fjarri þvi að vera fullkomnar, hjálpa til við að gera vinnuna markvissa og eru vonandi til þess að vefverkefni fari síður fram úr í tíma og peningum. Það er mikils virði fyrir óreynda vefstjórnendur í fyrirtækjum og stofnunum að hafa sérfræðing sem sinn talsmann gagnvart sérfræðingum á vefstofunum.

Það er vaxandi eftirspurn eftir ráðgjöf minni varðandi mótun vefstefnu og innri vefi. Það finnst mér ánægjulegt. Innri vefir eru nánast óplægður akur í íslenska vefgeiranum. Vefstofur hafa fæstar mikla þekkingu á uppbyggingu innri vefja en ég tek eftir því að lestur á greinum um innri vefi sem ég hef skrifað fer vaxandi. Og það kæmi mér ekki á óvart að ráðgjöf vegna innri vefs verkefna eigi eftir að fjölga mikið á næstu árum. Þar hef ég talsverðu að miðla.

Ég hef lært gríðarlega mikið á þessu fyrsta ári mínu í vefráðgjöf. Þrátt fyrir að vera með 17 ára reynslu í vefbransanum og lengst af í vefstjórn þá er ég enn að læra. Ég hef gert mistök á þessu ári. Ég hef vanáætlað tímafjölda í eigin áætlunum en viðskiptavinir mínir líða ekki fyrir það. Ég hef líka mátt stundum verið ákveðnari í samskiptum og standa betur á eigin prinsippum. Eitt verkefni leið fyrir það. En langflest verkefni vil ég meina að hafi skilað talsverðum ávinningi.

3. Ertu þá orðinn ríkur?

En svo er það spurningin sem flestir vilja fá svar við, er ég orðinn ríkur á þessu?

Efnislega nei en ég hef nóg, næ ágætum tekjum en það eru sveiflur og enginn borgar mér lengur fyrir að vera í fríi. Ráðgjöfin er ekki ódýr en vonandi sanngjörn. Ég er ekki Móðir Teresa þó ég hafi háleit markmið. Það stríddi líka gegn markmiði mínu að auka virðingu fyrir vefnum ef ég færi nú að selja þjónustuna á verði langt undir annarri sérfræðiþjónustu.

Það fer mikill tími í kennslu, fyrirlestrahald, bókaskrif, blogg og félagsstörf. Ég verð ekki ríkur af því en hluti af því er markaðsstarf og því ekki einskær fórnfýsi á ferðinni. En ég hef unnið ágætan lottóvinning á þekkingarsviðinu og í þroska fyrir mig sem einstakling. Ég er því miklu ríkari í dag en ég var fyrir ári síðan. Og ég er að gera það sem mér finnst skemmtilegast og um leið tel ég mig vera að gera eitthvað gagn.

Ég hef unnið með dæmalaust góðu fólki og kynnst ýmsum geirum íslensks atvinnulífs með mínum viðskiptavinum. Mér finnst íslenski vefheimurinn æðislegur, það er lygilega gott fólk upp til hópa sem starfar þar og alltaf tilhlökkun að hitta mannskapinn á formlegum sem óformlegum fundum.

Amen.

6 Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.