Ég er raunsæismaður að eðlisfari (sumir kalla það svartsýni). Þegar talið berst að starfi vefstjórans og virðingu fyrir starfinu þá hefur raunsæið farið í gegnum öldudali og einnig farið með himinskautum.
Virðingarleysið eða skilningsleysið fyrir starfi vefstjórans fékk mig til að hefja þá vegferð sem ég hóf fyrir nokkrum árum með kennslu og skrifum sem voru fyrst og fremst ætluð vefstjórum. Mér finnst það hafa skilað þokkalegum árangri. Ekki að það sé mér að þakka, fjarri því, en það virðist hafa verið ágæt fjölgun í stöðugildum vefstjóra í íslenskum fyrirtækjum án þess að ég hafi haldbærar tölur. Þetta er tilfinning eftir að hafa verið í miklum samskiptum við tugi fyrirtækja á undanförnum tveimur árum. Þá á ég við að það sé verið að ráða starfsmenn í fullt starf til að sinna vefstjórn og halda utan um rafræn samskipti.
Bókin um vefinn var mér mikilvægur áfangi í þessari vegferð. Hún var hugsuð sem handbók fyrir vefstjóra og aðra sem annast vefmál í víðum skilningi. Ég finn á lesendum að hún hefur hitt ágætlega í mark. Mest hefur komið mér á óvart að heyra umsagnir fólks sem ég áttaði mig ekki á að sækti í þessa bók, þ.e. fólk sem vinnur dags daglega við eitthvað allt annað en vefmál en þarf að efla skilning sinn á þeim t.d. vegna þessa að það er ábyrgt fyrir einhverju félagi, samtökum eða litlu fyrirtæki og þarf því að takast á við vefmálin. Ég er þakklátur fyrir jákvæðar umsagnir þessa fólks og svo auðvitað fjölmargra vefstjóra og sérfræðinga í vefgeiranum.
Tómlæti, virðingar- og skilningsleysi?
En markmið mitt næst samt ekki nema að ég nái eyrum stjórnenda. Þar liggur stærsti vandinn í áðurnefndu virðingar- og skilningsleysi á starfi vefstjórans. Fjölmiðlar hafa sýnt bókinni tómlæti sem er miður og það er engin fagleg umfjöllun um efni hennar í nokkrum miðli. Það hefur mér þótt synd. Sumpart er það eflaust vegna þess að ég hef ekki haft neinn tíma til að fylgja henni eftir með markaðsstarfi en lika er vandinn sá að á Íslandi er lítil sem engin umfjöllun um rafræna þjónustu og vægi hennar nema þá í auglýsingakálfum sem Fréttablaðið gefur út reglulega í búningi blaðamennsku.
Ég hef engar beinar tekjur af sölu bókarinnar en heilmikla óbeina hagsmuni auðvitað sem ég er ekki svo barnalegur að fela. En hvort sem þið trúið því eða ekki þá er markmið mitt fyrst og síðast að koma boðskapnum á framfæri. Þessi bók á að mínu mati erindi í öll fyrirtæki og stofnanir á landinu og hún þarf að vera lesin af stjórnendum. Vefstofur eiga að gefa viðskiptavinum sínum bókina til að efla skilning þeirra og gera að betri viðskiptavinum.
Ef vefstjórar sem lesa þessa grein vilja fá mig til að tala um efni bókarinnar við stjórnendur þá bókið mig endilega. Ég mæti (frítt að sjálfsögðu) og flyt boðskapinn. Það er líka von mín að bókin nái fótfestu í skólum landsins þar sem undirstöðuatriði upplýsingamiðlunar eru kennd.
Verðlaunum vefstjórann með uppsögn
Í vetur hafa mér borist fréttir af uppsögnum vefstjóra í opinbera geiranum sem hafa valdið mér miklum vonbrigðum og hugarangri. Staðan var ekki beysin fyrir. Í yfir 80% íslenskra stofnana ná stöðugildi vefstjóra ekki einu 100% starfi. Það eitt út af fyrir sig er hörmung. Svo heyri ég af því að ein af stærri stofnunum ríkisins sem ekki löngu áður réð loksins manneskju í fullt starf vefstjóra henti út stöðugildinu í hagræðingarskyni. Og tímapunkturinn, jú nokkrum vikum eftir að vefurinn fékk vefverðlaun. Svona er vefstjórum umbunað hjá hinu opinbera! Svo virðist sem að stjórnendur hafi talið að verkinu væri lokið, nú gætu aðrir tekið við rekstri á vefnum sem augljóslega er einhvers konar bæklingur í þeirra huga. Fyrir ekki svo löngu síðan gerðist sambærilegt í æðstu stjórnsýslu landsins en í síðustu hagræðingaraðgerðum þar var tveimur vefstjórum sagt upp starfi þar sem fyrir var undirmönnun.
Hvers vegna er þetta skilningsleysi á mikilvægi starfs vefstjórans? Hvernig er hægt að komast að þeirri niðurstöðu í hagræðingaraðgerðum hjá hinu opinbera að réttast sé að segja upp fólki sem er í bestri aðstöðu til að leiða hagræðingu í rekstri og efla þjónustu?
Vefstjórar eru lykilmanneskjur í að leiða þróun sem öll nágrannalönd okkar hafa farið eða eru að fara. Í Bretlandi, Danmörku, Eistlandi, Svíþjóð og Noregi er rafræn þjónusta á fljúgandi siglingu. Hún er hin sjálfsagða þjónusta og aðrar leiðir eru víkjandi. Það er miklu dýrara að fá fólk í heimsókn, sinna viðskiptavinum í gegnum síma eða í gegnum póst.
Nútímafólk á öllum aldri vill afgreiða sig sjálft. Hvenær ætla forstjórar og þá sérstaklega hjá hinu opinbera að skilja það? Nei rekum vefstjórann! Það virðist vera lausnin í þeirra huga á meðan lausnin ætti auðvitað frekar að vera að reka skilningsvana og afdalahugsandi stjórnendur.
Hlustið á ríkisskattstjóra eða útvarpsstjóra. Mitt í allri hagræðingu hafa þessir stjórnendur blásið til sóknar í rafrænni þjónustu og það hefur skilað árangri. Svona fólk á að stjórna fyrirtækjum á Íslandi.
Ég ætla að vera áfram raunsæismaður og á miðju sumri að leyfa mér að vera dálítið bjartsýnn. Starf vefstjórans og þeirra sem bera ábyrgð á rafrænni þjónustu og samskiptum er lykilfólk í íslenskum fyrirtækjum á næstu árum. Fjárfestum í þekkingu og reynslu þessa fólks í stað þess að losa okkur við það.
Flottur pistill!
Takk fyrir það Margrét 🙂