Á hádegisverðarfundi Ský, faghóps um vefstjórnun, þann 4. maí sl. var skyggnst inn í verkfærakistu og starf vefstjórans í fjórum erindum. Í starfi vefstjórans reynir oft á markaðsskilning, þekkingu á tækni, hæfni í verkefnastjórn og skrifum svo dæmi séu tekin. Erindin endurspegluðu þennan fjölbreytileika. Í þessari grein fjalla ég um erindi Droplaugar Margrétar Jónsdóttur um verkefnastjórnun vefmála hjá Íslandsbanka .

Droplaug, eða Doppa, flutti góð skilaboð sem mér finnst að eigi erindi við alla vefstjóra. Doppa er mannfræðingur að mennt. Hún sá ýmis líkindi með starfi mannfræðingsins og vefstjórans. Vefstjóri þarf t.d. að setja sig vel inn í menningu, umhverfi og tungumál þeirra sem unnið er fyrir og túlka það sem fyrir augu ber.

Vefstjórar eru í samskiptum við stóran hóp fólks með ólíkar þarfir og bakgrunn. Doppa sagði að viðamesti hluti starfsins væri að „besta“ vefina, hlúa að þeim og þróa áfram. Ekki alltaf að smíða eitthvað nýtt og afgreiða allar óskir umhugsunarlaust. Vefstjórinn er yfirleitt með marga bolta á lofti á hverjum degi og þarf að tryggja framgang verkefna frá a til ö. Mikilvægt er að spyrja endalausra spurninga og hegða sér eins og rassálfur! (Rassálfar koma fyrir í sögunni um Ronju Ræningjadóttur og eru spurulir með eindæmum!)

Í lok erindisins dró Doppa fram nokkrar lærdóma sem hún vildi að gestir tækju heim með sér.

Fimm atriði sem þarf að hafa í heiðri:

  1. Hlustið á notendur
  2. Ekki sleppa undirbúningsvinnunni. Hún margborgar sig
  3. Vertu rassálfur og spurðu alltaf „af hverju?“
  4. Prófa, prófa, prófa. Það er aldrei prófað of mikið, notendaprófanir, prófanir í vöfrum, tækjum o.fl.
  5. Gerið ríflega áætlun við tilboð / kostnað við vefverkefni. Undantekningalaust fara verkefni fram úr áætlun.

Fimm atriði sem þarf að varast:

  1. Það að þykjast vita allt boðar ekki gott. Vefstjórar vita yfirleitt ótrúlega lítið um ótrúlega marga hluti. Verið dugleg að leita til sérfræðinga, hlusta og treysta þeim.
  2. Það er ekkert til sem heitir „plug and play“ á vefnum. Hlutirnir eru alltaf flóknari
  3. Ekki vanáætla tíma fyrir prófanir og fínstillingar. Þessi þáttur er alveg jafn mikilvægur og hönnun og forritun
  4. Varist fullkomunaráráttu. Það er alltaf hægt að gera betur og vefir verða aldrei tilbúnir. Vefstjóri þarf að skilgreina það sem þarf að vera tilbúið
  5. Ekki segja alltaf JÁ. Verið meiri rassálfar!

Ég get tekið undir allt sem Doppa sagði í erindi sínu og það rímar vel við mína reynslu og upplifun af starfi vefstjórans eins og ég hef lýst henni í Bókinni um vefinn.

Erindið má nálgast á vef Ský ásamt erindum Heiðars Arnar Arnarssonar frá Isavia, Einars Þórs Gústafssonar frá Bókun og Sigmundar Ernis Rúnarssonar frá Hringbraut.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.