Það voru hæðir og lægðir í starfsemi Fúnksjón og lífi Sigurjóns vefráðgjafa á árinu 2016. Nú er þremur heilum starfsárum lokið hjá firmanu og væntingar og markmið hafa að mestu nást.

Mér hefur tekist að fjölga EKKI starfsmönnum þrátt fyrir 15-20% aukningu í veltu á hverju ári frá stofnun enda eitt aðalprinsipp með stofnun Fúnksjón að ráða enga starfsmenn.

Það má auðvitað spyrja sig hvort ekki sé þá komið að þolmörkum. Jú kannski. En það er auðvitað ekkert slæmt við það að það sé eftirspurn eftir þjónustunni. Í því felst frelsi. Frelsi til að velja verkefni frekar en að taka allt sem býðst. Ég hef reyndar aldrei unnið verkefni sem mig hefur ekki langað að vinna fram að þessu. En mig langar oft að hafa meira svigrúm, vinna hlutina enn betur en tíminn leyfir, vinna í langtímaverkefnum og fá fyrirtæki til að fjárfesta enn betur í undirbúningi og stefnumótun. Kannski verður 2017 þannig ár.

Það ypptu margir öxlum þegar ég hóf starfsemina 2013. Veltu fyrir sér hvernig ég ætlaði að fá fyrirtæki til að kosta meiru til í illa fjármögnuðum vefheimi. Það litu jú margir svo á að þessi þarfagreining, stefnumótun og notendarannsóknir væru fyrst og fremst kostnaðarauki. Merkilegt nokk þá hef ég aldrei upplifað þá skoðun þegar á reynir. Auðvitað átta allir sig á að það er heilbrigð skynsemi að undirbúa hlutina vel áður en ráðist er í hönnun og smíði vefja.

Velta 2014-2016

Vöxturinn er jafn þessi þrjú ár í veltu ráðgjafarinnar, þ.e. tekjur hafa vaxið á bilinu 15-20% fyrir hvert ár (krónutala) og síðustu tveir mánuðir 2016 voru þeir bestu í rekstrinum. En ég hef takmarkaðan áhuga á að endurtaka það vinnuálag tólf mánuði ársins. Í súluritinu hér fyrir neðan má sjá hvernig tekjur dreifast yfir mánuðina. Ég læt nú vera að birta heildarfjárhæðina. Fúnksjón er jú bara slf en ekki hf!

Velta Fúnksjón 2014-2016

Lærdómurinn fyrir þá sem eru í bransanum eða vilja fara þangað er að tekjur eru að jafnaði mestar á vorin (þegar fyrirtæki eru með ónotaðar fjárheimildir), verkefni detta niður í lok júní og út ágúst (muna að gera ráðstafanir í rekstri til að mæta því) og taka svo góðan sprett fram að jólum. Sumrin reynast held ég mörgum í bransanum erfið með tekjuflæði en það hefur verið merkilega stabílt í mínum rekstri. Ég tek mér engu að síður alltaf gott sumarfrí, ca. 4-6 vikur í tveimur hlutum.

Kennslan eykst en engir fyrirlestrar

Kennslan hjá mér hefur einnig verið að vaxa á þessum árum. Ég er núna kominn í stöðu aðjúnkts við nýtt diplómanám í vefmiðlun við Háskóla Íslands eftir að hafa verið stundakennari frá 2011. Þetta nám hefur verið í hægfara þróun með einum og tveimur kúrsum en núna fjölgar í kennarahópnum og breiddin eykst í náminu, ekki síst með tengingu við aðrar greinar t.d. viðskiptafræði, upplýsingafræði og blaðamennsku. Að mínu mati á þetta nám sér mikla framtíð hér á landi. Erlendis er allt UX (user experience) nám í mikilli þróun og vexti.

Mér hefur þótt afskaplega gaman að taka þátt í þessum vísi að alvöru námi fyrir vefmiðlara framtíðarinnar. Starf aðjúnkts er hlutastarf og þannig vil ég líka hafa það. Tel það góða blöndu að starfa sem ráðgjafi og kennari á sama tíma. Störfin bæta hvort annað upp. Það hefur verið ánægjulegt að sjá hversu margir hafa sýnt áhuga á námi í vefmiðlun og nú er svo komið að námskeið sem ég hef kennt í sex ár var sótt af yfir 40 nemendum sem er tvöföldun og rúmlega það frá fyrri árum. Margir þessara nemenda eru nú þegar farnir að vinna áhugaverð lokaverkefni sem munu bæta vel við þekkingu og skilning okkar á vefnum í stóru samhengi.

Síðustu tvö ár hef ég einnig kennt lotur við Vefskóla Tækniskólans en þar eru spennandi hlutir að gerast með menntun nemenda í vefhönnun og viðmótsforritun. Að hafa tækifæri til að vekja athygli hönnuða og forritara á mikilvæga notendaupplifunar, þarfagreininga og notendarannsókn er tækifæri sem erfitt er að hafna.

Tölfræði um kennslu og fyrirlestra árið 2016:

  • 2 námskeið fyrir nemendur í vefmiðlun við Háskóla Íslands, vor og haust
  • Lotukennsla í Vefskóla Tækniskólans, vor og haust
  • 3 námskeið fyrir vefteymi í fyrirtækjum
  • 85 (ca) nemendur í heild hafa sótt námskeið mín á árinu
  • 7 nemendur aðstoðaðir í verkefnum við Háskóla Íslands
  • 0 opinberir fyrirlestrar

Í fyrsta skipti frá 2013 flutti ég engan opinberan fyrirlestur og ég sóttist heldur ekki eftir því.

Hrun í greinaskrifum

Það hefur orðið hrun í fjölda færslna á vefnum mínum, úr 26 greinum árið 2014 niður í 6 greinar árið 2016. Fréttabréfið – Fróðleikur um vefmál – kom út fjórum sinnum á árinu samanborið við sex skipti árið 2015.

Áskrifendum hefur fjölgað hægt og bítandi en ekkert átak hefur verið gert til að fjölga þeim. Frá því að fréttabréfið hóf göngu sína í lok apríl 2014 hefur áskrifendum fjölgað um 337% úr 62 áskrifendum í 211. Um leið og fjölgun á sér stað lækkar aðeins hlutfall þeirra sem opna fréttabréfið (open rate) en það er núna í kringum 50%. Mér finnst það leiðinlega lágt hlutfall en það er víst ansi hátt í samanburði við sambærileg fréttabréf frá MailChimp sem er um 15%.

En skoðum aðeins betur tölfræði ársins um skrifin:

  • 6 greinar birtar á funksjon.net sem er fækkun frá fyrra ári en þá voru þær 9 en voru 26 árið 2014
  • 211 áskrifendur voru að Fróðleik um vefmál í árslok og fjölgaði um 28 á árinu
  • 4 fréttabréf gefin út, 6 árið 2015 og 11 árið 2014
  • Greinaskrif fyrir Tölvumál Ský (blað og rafræn útgáfa)

Workplace ógnin!

Starfsemi Fúnksjón hefur einnig verið ógnað með tilkomu Workplace lausnarinnar frá Facebook. Sum fyrirtæki telja sig ekki þurfa á ráðgjöf í innri vefs málum að halda heldur bara senda inn einfalda umsókn til Facebook og innri upplýsingamiðlun er reddað í eitt skipti fyrir öll. Líklega getur þessi lausn ekki hentað íslenskri þjóð betur því innri vefmálunum er víst reddað :).

Ég er afar spenntur fyrir þessari þróun og tel hana hafa heilmikið fram að færa fyrir bættri upplýsingamiðlun í fyrirtækjum. Hef nú þegar séð mjög  jákvæð áhrif í nokkrum fyrirtækjum sem ég hef unnið fyrir eða þekki til hjá. Það sem er líklega ánægjulegast við þetta allt saman er að loksins loksins eru forstjórar og yfirmenn í fyrirtækjum komnir með áhuga á innri upplýsingamiðlun. Þeir skilja Facebook og þeir elska skjótan ávinning.

Ég á eftir að rannsaka Workplace betur og mun fylgjast vel með. Færsla sem ég skrifaði um lausnina sl sumar vakti talsverða athygli og fór víða. Reyndar gildir það um nær allt sem ég skrifa um innri vefi, það er mikil eftirspurn eftir slíkri miðlun. Vonandi gefst mér tækifæri á að sökkva mér betur í samspil innri vefja og Workplace á þessu ári. Mig langar að gera könnun meðal stjórnenda og starfsmanna þeirra fyrirtækja sem hafa innleitt Workplace en í apríl 2017 er eitt ár liðið frá því að Eimskip innleiddi lausnina í BETA útgáfu og síðan hafa fylgt líklega tugir íslenskra fyrirtækja og stofnana. Reynslusögur (case studies) hafa fram til þessa ekki verið á lausu og fáir sérfræðingar erlendis skrifað um efnið.

Ráðstefnur og viðburðir

Sigurjón og Gerry McGovern
Einn af mínum andlegu leiðtogum í fræðunum Gerry McGovern

Það er langt síðan ég hef sótt jafn margar ráðstefnur og þetta árið. Í ráðgjöf er nauðsynlegt að vera á tánum, sækja viðburði innanlands og erlendis, lesa nýjustu bækurnar, hlusta á hlaðvörp, fylgjast með áhrifafólki í vefiðnaðinum í ræðu og riti. Þetta geri ég samviskusamlega og með ánægju.

Besta ráðstefnan sem ég sótti var án efa An Event Apart í Boston með snillingum á borð við Gerry McGovern og Jeffrey Zeldman. Ég hitti þann fyrrnefnda á ráðstefnunni en Gerry er eitt af mínum átrúnaðargoðum! Óhætt er að mæla með An Event Apart við alla sem hafa áhuga á vefhönnun, vefforritun, notendaupplifun og vefþróun almennt. Ég bloggaði aðeins um ráðstefnuna en hefði viljað gera fleiri erindum skil.

Önnur virkilega góð ráðstefna var haldin í Reykjavík, Go Digital, sem var skipulögð af Kolibri. Þau eiga heiður skilinn að hafa skipulagt metnaðarfulla og mjög svo áhugaverða dagskrá þar sem megin sviðsljósið var notendaupplifun (user experience). Ég get ekki annað en verið sáttur með þá áherslu, styður vel við það sem ég er að gera. Og það var áhrifamikið að hlusta t.d. á Jared Spool og Aarron Walter, sem ég hef bæði lesið talsvert eftir og fylgst með á Twitter lengi.

Ég komst því miður ekki á EuroIA ráðstefnuna í Amsterdam en það vakti ánægju mína að kollegi minn og samkennari við HÍ, Anna Signý Guðbjörnsdóttir, fór og hélt uppi heiðri Íslendinga. En undirritaður er sendiherra EuroIA fyrir Ísland og þarf að standa sig betur að mæta sjálfur. Ég hef farið tvisvar á þessa ráðstefnu (og talað sjálfur einu sinni) og get mælt heilshugar með henni.

Auk þessara ráðstefna sótti ég UT messuna (minnir mig), Haustráðstefnu Advania, flesta viðburði vefstjórnarhóps Ský og SVEF. Faghópur um vefstjórnun hjá Ský var að vanda öflugur á síðasta ári og hélt marga fjölsótta viðburði. Það er einnig mikið fagnaðarefni að SVEF skuli vera að rísa úr öskustónni eftir mörg mögur ár. SVEF efndi í lok árs til fundaraðar sem gekk undir heitinu veftríó (hönnuður, forritari og verkefnastjóri). Ég sótti tvo af þremur viðburðum sem voru ágætlega heppnaðir. Í janúar verður Iceweb ráðstefnan endurvakin með risanöfnum úr vefbransanum, m.a. einum af mínum áhrifavöldum Paul Boag. Ég er himinlifandi með komu hans og stefni að sækja vinnustofuna auk ráðstefnunnar.

Bækur um vefmál lesnar árið 2016

Bækur sem ég las

Áður en ég hóf ráðgjöfina og á fyrstu misserum hennar las ég ógrynni af bókum og greinum um vefmál. Og ég bloggaði helst um allt sem ég las til að festa þekkinguna í minni og deila henni. Nú er sífellt minni tími til umráða en alltaf les ég eitthvað. Helstu bækur í veffræðunum sem ég keypti og las (að mestu) á árinu voru:

  • Brad Frost: Atomic Design (vefhönnun)
  • Gerry McGovern: Transform (stefnumótun)
  • Erin Kissane: The Elements of Content Strategy (efnisstefna)
  • Leah Buley: The User Experience Team of One (notendaupplifun)
  • Erika Hall: Just Enough Research (notendarannsóknir)
  • Aarron Walter: Designing for Emotion (vefhönnun)
  • Abby Covert: How to Make Sense of Any Mess (upplýsingaarkitektúr)
  • Marcus Österberg: Web Strategy for Everyone (stefnumótun, tækni, vefstjórn)

Þessar bækur eru ekki allar glænýjar en sumar hef ég kynnt mér sérstaklega í tengslum við námskeiðin sem ég kenni, aðrar hafa vakið áhuga minn fyrir margra hluta sakir. Ég er sérstaklega hrifinn af bók Eriku Hall og mæli með henni ef fólk hefur áhuga á notendarannsóknum. Gerry er beittur í sinni bók og ögrar stjórnendum fyrirtækja, að þau mega ekki sofna á verðinum í þeirri stafrænu byltingu sem er að eiga sér stað. Vefhönnuðir eiga að kynna sér bók Brad Frost um Atomic Design, áhugaverð nálgun á hönnun og smíði vefja sem sækir hugmyndir til efnafræðinnar.

Yfirlit umferðar á funksjon.net árið 2016

Tölfræði funksjon.net

Þrátt fyrir færri greinar á árinu (6 í stað 9) stóð umferð um vefinn minn nokkurn veginn í stað. Hlutdeild Google (leitarvéla) fer sífellt vaxandi í umferð á vefnum þrátt fyrir fækkun greina. Eitthvað traust hefur Google á vefnum.

Yfirlit umferðar 2014-2016

2016 2015 2014
Gestir 4.788 4.504 5.755
Heimsóknir 6.432 6.518 8.818
Síður skoðaðar 11.217 13.225 18.874
Síður í hverri heimsókn 1,74 2,03 2,14
Meðaldvalartími (mín) 1,29 1,49 2,13
Brotthvarfshlutfall (bonce rate) 67,8% 63,2% 61,85%

 

Hvaðan komu heimsóknirnar?
Í kjölfar hnignandi útgáfutíðni á greinum á vefnum hefur uppspretta umferðar breyst umtalsvert. Leitarvélar skila 50% af umferð inn á vefinn og það hlutfall hefur tvöfaldast á tveimur árum.

Uppspretta umferðar á funksjon.net

 

 

Mest lesnu greinarnar á funksjon.net

Líkt og síðasta ár er tæplega hægt að birta 10 mest lesnu greinarnar á vefnum fyrir árið 2016 því útgefnar greinar voru aðeins 6! Ég skammaðist mín þá og lofaði úrbótum en stóð ekki við það. Núna lofa ég engu enda verkefnastaðan í upphafi árs þannig að ekki er tilefni til bjartsýni! Tvær af fimm mest lesnu greinunum eru greinar sem fóru í birtingu árið 2015.

Fimm mest lesnu greinar 2016 voru (fjöldi “page views” í sviga):

Fimm mest lesnu greinarnar frá upphafi eru:

  • Fólk lýgur á Facebook (2.699)
  • Innri vefur Isavia: Flugan (2.255)
  • Hvað kostar vefur? Mat á tilboðum (1.320)
  • Alþingiskosningarnar 2016 og vefir flokkanna (1.122)
  • Kosningar 2013: Stjónrmálaflokkarnir og vefmálin (965)

Viðskiptavinir Fúnksjón

Á árinu hef ég unnið fyrir tugi fyrirtækja/stofnana/félagasamtaka í smærri og stærri verkefnum. Verkefnin koma fyrst og fremst í gegnum vísanir frá öðrum fyrirtækjum sem hafa unnið með mér, eitthvað kemur óbeint í gegnum skrif / kennslu / fyrirlestra og svo er Fúnksjón sæmilega sýnilegt í gegnum leitarvélar. Auglýsingar eða sölumennska er lítið sem ekkert stunduð. Væri kannski vert fyrir mig að gera könnun um hvers vegna fólk leitar til Fúnksjón en ofangreint byggi ég aðallega á tilfinningu og svo spyr ég stundum af hverju viðkomandi hafði samband.

Meðal fyrirtækja (ekki tæmandi listi) sem ég vann fyrir á árinu eru:

  • ÁTVR
  • Bláa lónið
  • BSRB
  • Dómstólaráð
  • EFLA
  • Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga
  • Framvegis
  • Garðabær
  • Hæstiréttur
  • Háskóli Íslands
  • Icepharma
  • Landsnet
  • Landspítali
  • RARIK
  • Samorka
  • SFR
  • Tækniskólinn

Nokkrir nýir vefir litu dagsins ljós þar sem mín ráðgjöf átti hlut að máli:

Auk þessara eru margir vefir í farvatninu þar sem ég hef komið að ráðgjöf. Sumir munu ekki líta opinberlega dagsins ljós (innri vefir) og önnur verkefni eru á sviði stefnumótunar, greiningar eða annarrar vefráðgjafar þar sem nýr vefur er ekki markmiðið.

Gerum betri vefi

Ég þakka lesendum og viðskiptavinum fyrir góða samfylgd á liðnu ári og hlakka til samstarfsins árið 2017. Hafið endilega samband ef þið eruð með spennandi verkefni í bígerð. Ég er ekkert laus fyrr en í mars en það er stutt þangað til!

Verið dugleg að hugsa um vefinn ykkar á nýju ári. Gerum (áfram) betri vefi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.