Ég hef svikist um að gera upp árið 2018 en frá því að Fúnksjón vefráðgjöf hóf starfsemi í ágúst 2013 hefur árið verið gert upp við hver áramót. Núna er ég sem sagt um hálfu ári of seinn með uppgjörið en betra seint en aldrei.
Það eru takmörk fyrir því hvað eins manns ráðgjöf getur vaxið mikið á hverju ári en árið var gott í alla staði en það hægði á vextinum enda var álag komið út fyrir þolmörk fyrir eina manneskju. Síðustu tveir mánuðir ársins 2018 voru þeir stærstu í veltu Fúnksjón frá upphafi.
Ef litið er til veltu þá er Fúnksjón með einhvern vöxt á hverju ári ef miðað er við veltu. Árið 2018 varð aukning um tæp 12% en árið á undan 13%. Ég hækkaði tímagjald í byrjun árs 2018 um 1.000 kr eða úr 13.900 kr í 14.900 án vsk og veltuaukning skýrist því að stóru leyti vegna hækkunar á tímagjaldi.
Það sem ég hef tekið eftir í vefbransanum er að tímagjald sérfræðinga hefur vaxið verulega og þá sérstaklega hjá spútnikstofum sem hafa verið mjög eftirsóttar. Algengt tímagjald sérfræðinga á borð við mig eru 18. til 20.000 kr. án vsk. Dýrustu vefhönnuðir og forritarar eru komnir yfir 30.000 kr. + vsk. Persónulega finnst mér það komið út fyrir velsæmismörk. Það má vera ansi mikið virði sem þeir sérfræðingar skila og í reynd mikil pressa á þá einstaklinga sem eru seldir út á slíku gjaldi. Það er hins vegar gott að vinna sérfræðinga í stafræna heiminum sé mikils metin.
Stærri og færri verkefni
Árið 2018 var líkt fyrra ári að því leyti að viðskiptavinum mínum fór í reynd fækkandi en ég vann stærri verkefni fyrir mína helstu kúnna. Hefðbundnar þarfagreiningar fyrir nýja vefi voru í algjöru lágmarki en meiri tími fór í stefnumótun, ráðgjöf og verkefnastjórn. Einnig sinnti ég sem fyrr kennslu í Háskóla Íslands, var með námskeið og flutti fyrirlestra.
Landspítalinn hefur verið stór viðskiptavinur þar sem ég hef sinnt verkefnastjórn í stærri verkefnum, sinnt vefþróun og nýjum verkefnum á borð við aukna sjálfsafgreiðslu, greiningu notendaferla og stuðlað að aukinni samvinnu þvert á deildir og milli stofnana í heilbrigðisgeiranum. Einstaklega gjöful verkefni sem ég hef haft mikla ánægju af.
Opinberar stofnanir og ráðuneyti hafa leitað til mín í vaxandi mæli á hverju ári og stærstur hluti tekna minna kom þaðan árið 2018. Ég vann m.a. að spennandi verkefnum fyrir Reykjavíkurborg (undirbúning að smíði hönnunarkerfis) og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið (vefgátt fyrir tilkynningar um öryggisbresti). Önnur verkefni sem ég kom að voru t.d. stefnumótunarvinna með Veðurstofu Íslands, þarfagreining fyrir vef Kennarasambandsins og Persónuverndar.
Einu vefirnir sem fóru í loftið árið 2018 sem ég kom að voru vefir Persónuverndar, Landspítala og innri vefur Landspítala.
Stafrænt skal það heita
Árið 2018 hélt ég tvo opinbera fyrirlestra, annar á ráðstefnu Siteimprove og hinn hjá Tækniskólanum. Einnig var ég beðinn um að vera með fyrirlestur fyrir Ferðamálastofu sem var birtur á vef stofnunarinnar.
Ég spáði því í sambærilegum pistli á síðasta ári að árið 2018 myndu vefmál hætta að heita vefmál og þess í stað myndum við tala um stafræn mál, stafræna þjónustu og stefnu. Ég setti fram eftirfarandi spádóm fyrir árið 2018.
Ég hugsa að ársins 2018 verði minnst fyrir það að þá vöknuðu fyrirtæki til vitundar um sína stafrænu framtíð. Sanniði til.
Það þurfti kannski engan spámann til en ég held að flestir sem lesi þennan pistil geti tekið undir að þessi breyting hefur orðið. Við sjáum marga viðburði þar sem fjallað er um þessa stafrænu byltingu eða umbreytingu (e. transformation) og mesta fagnaðarefnið er að nú eru stjórnendur margir búnir að átta sig. Verkefninu er hins vegar engan veginn lokið. Erum rétt að byrja.
Árið 2019 markar tímamót
Þegar þetta er skrifað þá er ljóst að það verður ekki annar árspistill hjá Fúnksjón þar sem ég hef ákveðið að söðla um og takast á við stóra áskorun að færa þjónustu eins stærsta sveitarfélags landsins yfir í stafrænni búning. Meira um það síðar í öðrum pistli og enn meira á öðrum vettvangi.