Árið 2012 var ágætis ár fyrir vefinn eftir heldur mögur ár frá hruni. Án þess að hafa áreiðanlega tölfræði þá virðist manni nýjum vefjum hafa fjölgað mun meira árið 2012 en undanfarin ár.
Vefiðnaðurinn er líklegur til að eflast á næstu árum þar sem höfuðviðfangsefnið verður aðlögun vefja að snjallsímum og spjaldtölvum. Ör þróun samfélagsmiðla og app þróun mun ekki draga úr mikilvægi vefsins, þvert á móti.
Erlendis varð skalanleg eða snjöll (responsive) vefhönnun viðtekin aðferð árið 2012 en á Íslandi má segja hún hafi stigið sín fyrstu skref. Ein stærsta vefstofan hér á landi, Hugsmiðjan, hefur lýst þeirri skoðun að allir vefir eigi að vera snjallir (responsive). Ég hef tekið undir þá skoðun.
Vegur efnis á vefnum á eftir að aukast á næstu árum. Erlendis er þung umræða um efnisstjórnun og mikilvægi texta á vefnum. Fjöldi bóka og tímaritsgreina ber þess merki, ekki síst um efni fyrir mobile.
Ellefu heilræði fyrir vefstjóra 2013
En hvað ber 2013 í skauti sér? Ég hef tekið saman lista yfir helstu atriði sem vefstjórnendur ættu að huga að á þessu ári.
1. Vertu viðbúinn mobile þróuninni
Hvort sem þér líkar betur eða verr er síaukin umferð notenda með snjallsíma og spjaldtölvur á vefnum þínum. Mögulega var hún 5-10% á síðasta ári. En á þessu ári mun hún a.m.k. tvöfaldast og slíkt umferðarmagn er ekki hægt að leiða hjá sér. Sestu niður með þínum sérfræðingum og spáðu í hvort rétt sé að smíða nýjan vef frá grunni eða aðlaga núverandi. Hugsaðu alla nýja virkni og efni fyrst út frá mobile.
2. Taktu til á vefnum
Brýndu hnífinn og farðu í almennilegan niðurskurð á efni vefsins. Taktu til á einstökum síðum, fjarlægðu efni sem engin eftirspurn er eftir og skipulegðu vefinn í samræmi við hegðun notenda.
3. Settu þér efnisstefnu
Erlendis hefur verið mikil umræða um efnisstefnu (e. content strategy) en hún er vart merkjanleg á Íslandi. Það er löngu tímabært að fyrirtæki setji sér efnisstefnu. Í því felst að eignarhald á einstökum síðum á vefnum er skýrt, hver beri ábyrgð, fylgst sé með því hvenær efni er uppfært, til sé dagatal fyrir viðhald og yfirferð, mótuð stefna um tón í skrifum o.fl.
4. Losaðu þig vil Flash
Ef þú ert ekki nú þegar búinn að því vefstjóri góður þá er tímabært að útleiða allt efni sem keyrir í Flash á vefnum. Apple styður ekki Flash, það er nægileg ástæða. Auk þess er bara vesen að uppfæra slíkar skrár og HTML5 leysir flest það sem Flash getur.
5. Auktu vægi myndbanda
YouTube kynslóðin (Y) vill helst ekki lesa. Hún vill fá efni matreitt í formi myndbanda. Hafðu það í huga þegar þú setur fram efni á vefnum. Stutt myndbönd geta þjónað þörfum þíns markhóps betur en texti.
6. Gerðu reglulegar notendaprófanir
Ekkert eitt gerir meira gagn fyrir þig sem vefstjóra en reglulegar notendaprófanir. Þær eru gulls ígildi. Þú getur unnið þær sjálfur eða fengið sérfræðinga til verksins. Það mun ekki sliga rekstur vefsins en öruggt er að þú færð margfalt til baka það sem þú leggur til.
7. Kallaðu eftir endurgjöf frá notendum
Með notendaprófunum færðu góða endurgjöf frá notendum en þú þarft að gera meira. Þú þarft að auðvelda notendum að koma skilaboðum áleiðis um efni og virkni vefsins. Það er gríðarlegur ávinningur. Kvartanir (líka hrós) eru dýrmætar.
8. Byrjaðu að blogga
Á Íslandi er óorð á bloggi, því miður. Greinaskrif á vefnum er góð fjárfesting. Gott sérfræðiefni skilar virðingu, meiri sýnileika í leitarvélum og er góð þjónusta við notendur vefsins.
9. Tengdu samfélagsmiðla við vefinn
Facebook, Twitter og aðrir samfélagsmiðlar eru mikilvægir stuðningsmiðlar við vefinn þinn. Þangað leitar ákveðinn hluti þíns markhóps að upplýsingum og þjónustu. Finndu þína leið til að fá jafnvægi í samspili samfélagsmiðla við vefinn þinn. En ekki halda að Facebook komi í staðinn fyrir vefinn.
10. Færðu ró yfir vefinn
Vefir sem skila mestum árangri eru ekki síst vefir þar sem notendum líður vel. Reyndu að færa ró yfir vefinn þinn, minnkaðu áreitið, veittu gagnlegar upplýsingar og hjálpaðu viðskiptavinum að leysa sín verkefni. Ekki ofhlaða vefinn með efni sem enginn sækist eftir. Mundu að stór hluti notenda er haldinn bannerblindu.
11. Vertu á tánum
Fylgstu vel með þróuninni á vefnum því hún er svo ör. Farðu á fundi, námskeið og ráðstefnur. Vertu á Twitter og eltu leiðtoga vefiðnaðarins.
4 Comments