Hroki er höfuðsynd í vefstjórn.

Til að ná árangri í vefstjórn er nauðsynlegt að byggja upp þekkingu. Skoðanir eru fínar en þær skila ekki miklum árangri. Fáfræði um viðfangsefnin, notendur, viðskiptavini, strauma og stefnur leiðir vefstjóra á villigötur.

Vefstjórar þurfa að hafa áhuga á viðfangsefninu, hafa skilning og samúð með viðskiptavininum. Hafa vilja til að læra því vanþekking elur af sér fordóma og vefurinn mengast af þeirri hugsun.

Auðvelt er að falla í þá gryfju að gera hlutina eins og maður hefur alltaf gert. Skeyta ekki um skoðanir notenda. Reyna ekki að afla sér vitneskju eða gagna um hegðun þeirra.

Ég gekk lengi með þá grillu að álit annarra skipti frekar litlu máli í þróun verkefna. Það væri of tímafrekt að hlusta á skoðanir annarra. Ég vissi allt best. Sá tími er liðinn. Stór hluti af tíma mínum fer í að kynnast notendum og afla gagna. Það er vissulega tímafrekt að en reynslan hefur kennt mér að þeim tíma er vel varið.

Vefstjóri verður að hafa áhuga á hinum óþekkta (notandanum), öðlast visku og skilning. Til þess höfum við t.d. notendaprófanir, kalla notendur til viðtals og auðvelda þeim að gefa álit sitt.

Þeir sem halda að þeir viti allt betur en aðrir gera sig fljótt seka um hroka gagnvart viðskiptavininum. Slíkt viðhorf getur ekki leitt af sér notendavænan vef.

Þegar tekist hefur að eyða vanþekkingu og skipta út fyrir raunverulega visku þá farnast vefnum betur. Vefstjórnandi verður meðvitaður um það sem raunverulega skiptir máli til að vefurinn uppfylli væntingar notenda á öllum æviskeiðum hans. Vefurinn getur þar með gengið reglulega í endurnýjun lífdaga.

Góður vefur er líka gjafmildur. Ef þú gefur ekkert þá færðu ekkert heldur. Vertu reiðubúinn að gefa frá þér þekkingu án þess að ætlast til að fá eitthvað í staðinn. Þannig öðlastu traust og virðingu þeirra sem skoða vefinn.

Ekki rembast við selja á vefnum (nema þú rekir vefverslun!) heldur sýndu fram á að þú hafir þekkingu eða þjónustu sem aðrir geta ekki boðið. Þá verðurðu eftirsóttur og fólk mun leita til þín. Það er marg sannað að “frítt” efni eins og rafbækur án nokkurra skuldbindinga gefur af sér viðskipti.

Um áramót er gott að setja sér markmið. Breyta einhverju sem má betur fara og styrkja það sem vel hefur verið gert. Hvernig væri að heita því að kynnast notendum vefsins betur í ár. Það kostar lítið en ávinningurinn er ótvíræður.

Leyfðu samúðinni að sigra hrokann árið 2013.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.