Á ráðstefnu Ríkiskaupa 7. nóvember fékk ég tækifæri til að flytja erindi um opinbera vefi. Ég kaus að kalla erindið „Betri opinberir vefir“ og hnýtti aftan við heitið „6 spora kerfið til bættrar vefheilsu“. Þessi grein er unnin upp úr erindinu og hægt er að skoða glærurnar hér á síðunni eða á SlideShare.

Ég hef djúpa sannfæringu fyrir því að það megi einfalda og bæta alla vefi. Sama hversu góðir þeir eru. Það kann að hljóma frekar einfalt en einfaldleikinn er ekki alltaf auðveldur. Það er ýmis ljón í veginum. Um það fjallar erindi mitt og leiðir til að bæta úr ástandinu. Skoðum málið.

 

Tölum um bíla

Lada 1200
Fyrsti bíllinn minn. Lada 1200

Tölum samt fyrst um bíla. Ég keypti fyrsta bílinn minn 17 ára og árið var 1986. Þetta var árgerð 1981 af Lödu 1200, heiðgulur að lit. Síðustu misseri hefur mér oft verið hugsað til hans. Það stafar einhverjum ljóma af þessari bifreið og án efa á fjarlægðin sinn þátt í því. Hann var svo sem ekki alltaf samvinnuþýður, sérstaklega ekki í rigningu.

Ég hef aldrei kunnað neitt á bíla en staðið mig vel í að koma þeim klakklaust frá A til B. En þessi bíll var þeim kostum gæddur að hann var sérlega einfaldur og meira að segja aulinn ég gat sinnt einföldu viðhaldi t.d. að skipta um perur í ljósum og svei mér þá ef ég skipti ekki einhvern tímann um kerti.

Í dag á ég aðeins nýrri bíl, Citroen C5, alls ekkert nýr samt, árgerð 2005. Þar fer nú lítið fyrir einfaldleikanum. Í mælaborðinu eru fleiri hnappar en ég hef tölu á og satt best að segja veit ég veit mest lítið hvaða virkni flestir af þeim hafa. Það er rafmagn í öllu og það getur allt bilað.

En það sem er sorglegast og gildir ekki bara um franska bíla er að það er bara á færi sérhæfðra verkstæðismanna að skipta um einfalda hluti eins og perur í framljósum og slík aðgerð getur tekið þá allt að hálftíma! Hvað er það? Eitthvað sem ég kláraði á 2 mínútum á Lödunni, ég sjálfur!

Hvað hefur nútíminn gert okkur? Af hverju flækjum við svona hlutina? Mig langar – í alvöru – mig langar í Lödu 1200 aftur. Bara nýrra módel og alls ekkert rafmagn í neinu takk fyrir. Enga óþarfa hluti, ég get vel skrúfað niður rúður og fært til sæti fram og aftur, upp og niður. Bíllinn þarf bara að koma mér frá einum stað til annars. Hvað er svona flókið við það?

Tilfellið er að nútíminn hefur gert okkur löt. Það er svo einfalt að smíða eitthvað nýtt og við verðum alltaf að sýna hversu góð við erum í að búa til hluti. Framleiða, framleiða og framleiða meira. Jafnvel þó engin sýnileg þörf er fyrir það. Bara vegna þess að við getum það.

Einfaldleikinn er sigurvegari í samkeppni

Google leitarvélin
Einfalt ekki satt?

Þetta er í raun óskiljanlegt í ljósi þess að mér finnst margsannað að einfaldleikinn er sigurvegarinn í samkeppninni. Þeir sem kunna að greina kjarnann frá hisminu standa uppi sem sigurvegarar og ekki síst á vefnum.

Það þekkja líklega allir Google leitarvélina og flestir nota hana á hverjum degi. Hún er sérlega einföld og um leið afar gagnleg. Það er bara eitt verkefni á þessum vef sem skiptir höfuðmáli. Það er leit. Aðrar leitarvélar hafa lotið í gras fyrir þessum vef og það er fyrst og fremst vegna þess að þær hafa gert hlutina of flókna. Misst sjónar af aðalatriðinu.

Ég þarf ekki heldur að minna ykkur á velgengni Apple. Steve Jobs fækkaði vöruflokkum um 80% á ákveðnum tímapunkti, áttaði sig á að til að sigra í samkeppni yrði hann að gera fáa hluti vel en ekki marga hluti sæmilega. Jobs var upptekinn af speki Zen búddisma og hún hafði talsverð áhrif á hugmyndafræði hans. Speki sem byggir m.a. á að halda í einfaldleikann, halda einbeitingu (fókus) og ítra hlutina stöðugt. Vinna í stöðugum endurbótum.

Þegar þú tekur einhvern hlut upp í fyrsta skipti og veist um leið hvernig þú átt að gera hlutina sem þig langar að gera, það er einfaldleiki. (apple.com)

Hvar eru lykilverkefnin?

Hafa vefirnir okkar náð þessum einfaldleika og sérstaklega opinberir vefir? Nei, því miður. Stóra vandamálið á opinberum vefjum, og það gildir reyndar um flesta vefi, er að þeir eru alltof flóknir. Það eru ótal lítil verkefni að trana sér fram og skyggja á það sem skiptir mestu máli.

Eigendur vefjanna og vefstjórarnir þekkja jafnvel ekki lykilverkefnin á vefnum. Vinna ekki nauðsynlega undirbúningsvinnu. Hvað það er sem skiptir mestu máli. Og það er vegna þess að vefnum er ekki vel sinnt. Það er líka svo miklu miklu einfaldara að bæta við en skera niður og halda fókus. Svo einfalt er það.

Vefur Umhverfisstofnunar
Margt i boði þarna

Tökum dæmi, skoðum vef Umhverfisstofnunar. Ágætur vefur að mörgu leyti, en hver eru eiginlega lykilverkefnin á þessum vef? Er það þjónusta, upplýsingar og áhugavert? Hvar er þá þetta óáhugaverða? Kannski í hinum 92 tenglunum sem eru á forsíðunni (tenglar í fæti ekki meðtaldir)!

Þarna má finna sem sagt tæplega 100 tengla á forsíðu vefsins. Já sæll! Fyllist einhver valkvíða hér? Getur verið að Umhverfisstofnun hafi svo mörg lykilverkefni sem notendur þurfa að leysa á vefnum? Má „grænt kynlíf“ kannski missa sín?

Ég endurtek, þessi vefur er alls ekkert sérstaklega tekinn fyrir sem slæmur vefur. Held reyndar að honum sé ágætlega sinnt en vefstjórinn þarf samt að ákveða hver fókusinn á að vera og gefast ekki upp fyrir heimtufrekju allra hagsmunaaðila í stofnuninni, sem vilja allir sitt á forsíðu.

Myndum við sætta okkur við þetta í umferðinni?

Vegaskilti
Mynd: kimberlyanncoyle.com

Snúum okkur aftur að umferðinni. Á vegum úti treystum við á að geta tekið skjótar ákvarðanir á 90 km hraða hvert við förum næst. Annars fer illa. Það þurfa að vera fá en áberandi skilti sem vísa veginn.

Hvað ef skilti Vegagerðarinnar við Borgarnes væru eins og meðfylgjandi mynd sýnir? Kannski 30 möguleikar sem er jú bara þriðjungur af skiltunum á vef Umhverfisstofnunar. Hver yrði fjölgun umerðarslysa á einu ári á þjóðvegi 1 ef við hegðuðum okkur eins í vegaskiltum og við gerum í skiltagerð á vefnum? Afleiðingarnar eru vissulega ekki jafn alvarlegar á vefnum en Jeremías þar er þolinmæðin enn minni en á vegum úti og fartin jafnvel enn meiri.

Afar óvísindaleg könnun um opinbera vefi

Aftur að vefjunum. Ég má ekki missa mig í bílaumferðinni. Ég gerði mjög óvísindalega könnun á Facebook síðunni minni í tilefni af þessum fyrirlestri. Ég bað fólk um að tilnefna góða opinbera vefi og slæma opinbera vefi. Fékk ekki mikið af svörum en nokkur þó og þau komu ekkert sérstaklega á óvart. Þarna birtust góðkunningjar mínir í vefheimum og einhverra hluta vegna allir frá úr réttarkerfinu.

  • Einn af þeim sem þarfnast breytinga var fangelsi.is. Af vefnum að dæma þá virðist hann vera jafn fjársveltur og fangelsismálin í heild sinni.
  • Næstur var frændi þess, vefur Hæstirréttar Íslands. Dálítið eins og hann hafi verið smíðaður árið sem ég byrjaði á vefnum, 1996.
  • Og loks einn af þessum góðkunningjum, vefur Lögreglunnar, en sá vefur kemur ótrúlega oft upp í huga fólks þegar rætt er um dapra opinbera vefi. Enda líklega aðalástæða þess að löggan fór á Facebook.

Hvað eiga þessi vefir sameiginlegt? Í mínum huga er það aðallega eftirfarandi:

  • Börn síns tíma, fá greinilega lítið fjármagn og tími kominn á endurnýjun.
  • Ofhlaðnir og virðist skorta skilning á hver séu lykilverkefnin.
  • Ofuráhersla á fréttir en allar kannanir sýna að fréttir eru ansi neðarlega í forgangsröðinni hjá notendum ef spurt er hvað það sé sem dregur fólk inn á vefi fyrirtækja og stofnana. Engu að síður eru þær alltaf nánast í forgrunni og fá mest pláss.
  • Líklega ekki virkur vefstjóri í stofnuninni.
  • Lögfræðingar hafa lítinn skilning á vefmálum

Það komu einnig nokkrar tilnefningar um góða opinbera vefi. Og ég ítreka, þetta er mjög óvísindaleg könnun og endurspegla ekki endilega mín sjónarmið.

  • Landlæknisembættið er með ágætan vef sem virðist hafa aðalatriðin á hreinu þó mér finnist vefstjórinn hafa gefið full mikinn slaka í tenglum á forsíðu. Skýrir flokkar og léttleiki einkennir annars vefinn. Virðist vera býsna notendavænn.
  • Ríkisskattstjóri er eitt af þeim embættum sem hefur stórbætt ímynd sína með bættri þjónustu á netinu. Hver elskar ekki orðið að fylla út skattframtalið sitt? Þetta er ljómandi fínn vefur sem skalast í öllum tækjum.
  • Vefur Akureyrarbæjar er þægilegur, skýr og einfaldur. Með áherslur á réttum stöðum en hann fékk einmitt verðlaun í úttektinni á opinberum vefjum árið 2011.

Hvað eiga þá þessir vefir sameiginlegt?

  • Hafa nokkuð skýrar áherslur á lykilverkefni og eru frekar einfaldir.
  • Minni áhersla á fréttir en þó fá þær sinn sess.
  • Virðist augljóst að þar sé virkur vefstjóri.

Aðeins einn af þeim, rsk.is, er skalanlegur (responsive) en ég á orðið erfitt með sjálfur að gefa vefjum hæstu einkunn nema það skilyrði sé uppfyllt.

Könnun um opinbera vefi 2013

Opinberir vefir 2013: Starfshlutfall í vefstjórn
Smelltu á myndina til að skoða stærri útgáfu

Þá skulu við tala um mun vísindalegri könnun. Ég er svo heppinn að geta gefið sjóðheitar upplýsingar úr óbirtri rannsókn um opinbera vefi – “Hvað er spunnið í opinera vefi 2013” – sem er núna gerð í fimmta sinn. Hún leiðir margt áhugavert í ljós og verður vitaskuld kynnt betur síðar.

Það sem ég hafði fyrst og fremst áhuga á að veiða upp úr könnuninni voru svör við tveimur spurningum:

  • Hver er fylgnin á milli þess að hafa virkan vefstjóra og árangurs?
  • Hversu mikilvæg breyta er stærð stofnana?

Skoðum fyrst tengsl starfshlutfalls í vefstjórn við árangur í þessari könnun. Vefirnir geta mest fengið 100 stig en samsetning einkunnar kemur úr fjórum þáttum:

  • Innihald
  • Nytsemi
  • Aðgengi
  • Þjónusta
Opinberir vefir 2013: Stærð stofnunar
Smellið á mynd til að skoða stærri útgáfu

Hér sjáum við skýra mynd af því að stofnanir sem hafa a.m.k. 1 stöðugildi í vefstjórn fá mun betri einkunn en vefir þar sem unnið er í hlutastarfi. Þessar niðurstöður styðja hressilega við áróður minn og fleiri um nauðsyn þess að hafa virkan vefstjóra. Það er ekkert grín að halda úti vef stofnunar í hlutastarfi. Það verður enginn góður vefstjóri með þeim hætti. Vefir sem hafa eitt stöðugildi eða meira fá yfir 80 stig að meðaltali í þessari könnun en vefir með hálft stöðugildi eða minna fá allt niður í 56 stig.

Stærð stofnana hefur lika augljós áhrif. Stofnanir með fleiri en 51 starfsmann koma áberandi best út og það er vel skiljanlegt. Stofnanir með færri en 20 starfsmenn ráða greinilega illa við að halda úti góðum vef og fá allt niður í 63 stig. Stofnanir með yfir 50 starfsmenn eru með allt að 80 stig að meðaltali.

Það verður svo fróðlegt að sjá endanlegar niðurstöður þessar könnunar. Í hvaða opinbera vef er mest spunnið árið 2013?

Sex spora kerfið til bættrar vefheilsu

Nú er ég búinn að fjalla talsvert um vandamálin við opinbera vefi. Hef ég einhverjar lausnir aðrar en að dæla peningum í vefmálin, sem eru alls ekki til? Já ég vil meina það.

Hér langar mig að kynna sex spora kerfið í til lausnar á vanda opinberra vefja.

  1. Yfirlýsing ríkisstjórnar 
    Við verðum að fá það út frá æðstu stöðum að vefurinn sé brýnasta þjónustugáttin fyrir almenning. Það að yfirstjórn stofnunar, fyrirtækis og í þessu tilviki ríkisstjórnar segi þetta gefur hlutunum þá vigt sem nauðsynleg er.
  2. Vefir eru fyrir notendur – ekki starfsmenn
    Hér þarf að árétta hlut sem ætti að vera jafn sjálfsagður og að á eftir nóttu kemur dagur. Vefir eru fyrir notendur en ekki starfsmenn stofnana. Það er lygilegt hvað þettta gleymist oft, enn þann dag í dag.
  3. Aukin völd til vefstjóra
    Nauðsynlegt er að færa aukin völd til vefstjóra og styrkja þá í starfi. Þeir þurfa aukna fræðslu, með henni kemur sjálfstraust og þar með geta vefstjórar tekist á við öfluga hagsmunaaðila í stofnunum með rökum og gögnum að sumt efni sé mikilvægara en annað.
  4. Vöndum undirbúning vefverefna
    Við verðum að huga vel að undirbúningi verkefna. Hætta að gera bara eitthvað. Það verður að greina þarfir notenda og setja lykilverkefni í forgang. Góður undirbúningur getur sparað umtalsverða fjármuni í hönnun og forritun vefja.
  5. Sameinum vefi ríkisins
    Nú er komið að róttækni. Við eigum að sameina vefi ríkisins. Ef breska ríkisstjórnin (vel að merkja þar er íhaldsstjórn við völd) gat sameinað alla vefi breska stjórnarráðsins og undirstofnana þeirra í einum vef gov.uk með 63 milljónir íbúa þá getum við, örríkið Ísland, einfaldað og bætt þjónustu íslenska ríkisins. Einn ríkisvef takk fyrir.
  6. Sameinum stofnanir
    Að síðustu, sjötta sporið. Við sjáum það skýrt í könnun um opinbera vefi að því stærri sem stofnanirnar eru þeim mun betur er haldið á vefmálunum. Það eru fleiri starfsmenn að sinna þeim. Þetta er eiginlega sjálfgefið. Hættum að reka litlar stofnanir, 1-50 manna því stærðin skiptir máli í vefstjórn.

Þetta var erindi mitt til ykkar. Nú er bara að stíga fyrsta sporið og hefjast handa við að bæta opinbera vefi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.