Ég er einfaldur maður með einfaldar þarfir en ég lifi og hrærist í heimi sem verður sífellt flóknari. Hugmyndir koma til mín úr ýmsum áttum. Í þessari grein langar mig að segja frá því hvernig ítölsk matargerð hefur styrkt mig í trúnni á einfaldleikann á vefnum.

Um leið og ég hugsa hve maður er heppinn að hafa ekki verið Íslendingur fyrir nokkrum mannsöldrum, með þeirri eymd og volæði sem þeirri tilveru fylgdi, þá lít ég stundum með ákveðinni rómantík til þess tíma þegar ég var að alast upp á ofanverðri 20. öld. Þá var lífið einfaldara.

Einfaldleikinn er vandasamur

Mér finnst oft erfitt að ná einbeitingu út af áreitinu sem er allt í kringum mig. Ég er mjög meðvitaður um þetta vandamál, sem ég vil nefna svo. Er sífellt að leita leiða til að einfalda líf mitt og hef tekið nokkur skref í þá átt en á samt svo langt í land. Þessa hugmyndafræði, ef nota má svo hátíðlegt orð, vil ég færa yfir á vefinn. Mig langar að einfalda og um leið bæta vefi.

Þetta er kjarninn í skilaboðunum sem ég flyt í minni vefráðgjöf. Ég treð þessari hugmyndafræði ekki ofan í kokið á mínum viðskiptavinum en þegar ég nálgast verkefni með þeim þá samsinna allir. Það vilja allir færast nær einfaldleikanum þegar þeir leiða hugann að því. Og það gleður mig.

Einhver kynni að halda að þetta fyrsta boðorð mitt í vefmálum sé einfalt að halda. Það er öðru nær. En fyrir puðið fæst umbun. Ekki sérstaklega fyrir mig eða viðskiptavininn heldur fyrst og fremst þá sem njóta þjónustunnar.

Fyrirtækjamenningin er stærsta hindrunin

Hindranirnar eru ekki síst í skipulagi fyrirtækja og menningu. Þeir sem hafa unnið hjá stærri fyrirtækjum eða stofnunum þekkja hve listilega hefur tekist að flækja starfsumhverfið og þjónustu sem þau veita. Fundahöldin, skrifræðið, verklagsreglurnar, gæðakerfin, flóknu vörurnar og skipuritin. Hvers vegna hefur þetta gerst? Sumpart til að sýna hve klár við erum. Langskólagengnir sérfræðingar vilja vitaskuld sýna yfirburði sína í verki. Einfaldleiki er fyrir aumingja er viðhorfið.

Við höfum ekkert við fólk að gera sem menntar sig til þess eins að flækja hlutina. Og það þarf ekki heldur menntun til. Vanþekkingu er einfaldast að dylja með með flóknu og lélegu innihaldi.

Vefir draga dám sitt af þessu. Frá byrjun hafa þeir verið æfingastöð snillinga sem hafa viljað sýna hvað í þeim býr. Sjáðu hvað ég get gert? Þetta getur þú ekki, ha!?

Vefir draga dám sitt af þessu. Frá byrjun hafa þeir verið æfingastöð snillinga sem hafa viljað sýna hvað í þeim býr. Sjáðu hvað ég get gert? Þetta getur þú ekki, ha!?

En nú er mál að linni. Við þurfum að hverfa aftur til einfaldleikans, nota þekkingu okkar til að einfalda líf annarra. Flest allt sem við gerum á vefnum eru hagnýtir hlutir. Við erum að leysa einhver verkefni og viljum helst gera það á sem skemmstum tíma. Ekki skemmir að fá í kaupbæti góða upplifun.

Ítölsk matargerð er gott leiðarljós

Hugsum um ítalska matargerð. Hvað einkennir hana? Fyrst og fremst einfaldleiki og ánægjuleg upplifun ekki satt? Ítölsk matargerð er einföld, fremur fyrirhafnarlítil en krefst alúðar, virðingar fyrir hráefninu, er laus við tilgerð og skilar góðri upplifun, sérstaklega ef hjartað hefur fylgt með í matargerðinni.

Þetta er uppskrift að góðum vef, ekki satt? Við viljum sýna honum natni, klappa honum á hverjum degi, nota aðeins besta fáanlega efnið, undanskilja óþarft efni, hugsa um þarfir notenda og þá erum við nokkuð viss um að skila góðri upplifun.

Í ítalskri matargerð er lagt upp með gott hráefni, hver hlutur fær að njóta sín. Í einni máltíð eru nokkrir réttir og hver þeirra fær sína athygli en ægir ekki öllu saman eins og við þekkjum úr hefðbundinni íslenskri matargerð. Þar er engin forgangsröðun, öllu hlaðið á sama disk og svo sósa yfir allt saman.

Þannig upplifi ég marga íslenska vefi. Þeir fylgja sömu hefð. Engin virðingarröð, alls ekki víst hvar skal stinga niður gafli (smella), bragðið af aðalhráefninu er týnt í sósunni (óþarfa efni) og salatið er best ef það eru nógu margar tegundir í því. Lesendur kannast við þetta.

Ég hef engan samanburð við ítalska vefi og reyndar tel fullvíst að ítalskir vefarar hafi sótt vatnið yfir lækinn þegar litið er til áhrifavalda í vefþróun og fjarlægst eigin (matar)menningu.

Hvað er ég að fara með þessu tali um ítalska matargerð og íslenska vefþróun? Kannski það sama og ég hef gert með áhrif sem ég hef orðið fyrir úr allt annarri átt, nefnilega búddisma. Við eigum að nýta okkur reynslu og þekkingu úr hvaða geira sem við komum eða reynslubrunni til að bæta og einfalda (vef)líf okkar.

(Svo er líklega ekki galið að sjá ýmis líkindi með ítalskri matargerð og speki búddismans. Hvoru tveggja ágætt haldreipi í að móta vefstefnu. Svei mér þá.)

Er þinn vefur skyndibiti?

Við verðum að bera virðingu fyrir vefnum, notendum, hráefninu og vinnubrögðum. Við megum ekki umgangast vefinn sem skyndibita sem kann að veita tímabundna sælu en skilur eftir sig samviskubit og ónot í maga.

Hvorum megin liggur þinn vefur?

2 Comments

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.