Það hefur lengi blundað í mér að kynna til sögunnar fólk sem skarar fram úr í íslenska vefbransanum. Það eru nefnilega andlit og persónur á bak við þessa vefi sem við höfum fyrir augunum á hverjum degi.
Þetta eru ekki eiginleg viðtöl heldur stuttar spurningar og svör um persónuna, daglegt amstur og vefmálin.
Fyrstur til að láta ljós sitt skína hér er Guðmundur Bjarni Sigurðsson eða Gummi Sig, listrænn stjórnandi og eigandi Kosmos og Kaos.
Allir sem eru eldri en tvævetur í vefbransanum þekkja Gumma Sig og verkin hans. Ég hef vitað af honum í mörg ár en ekki kynnst persónunni fyrr en á þessu ári. Frábær náungi með notalega nærveru.
Gumma Sig skaut upp á stjörnuhimininn árið 2009 í beinu framhaldi af bankahruni og persónulegu áfalli eftir að hafa verið sagt upp góðu starfi. Hann vann vel úr þessu og byrjaði á að hanna vef fyrir sjálfan sig gummisig.com.
Vefurinn náði mikilli athygli og fékk umfjöllun í Best Web Gallery sem átti eftir að skila sér í mikilli dreifingu og athygli í alþjóðlegum tímaritum á borð við Computer Arts og Smashing Magazine. Einnig rataði vefurinn í bækur um vefhönnun.
Á þessum tíma var Gummi Sig tiltölulega óþekktur á Íslandi en það breyttist svo sannarlega. En við vitum sem er að Íslendingar fá ekki viðurkenningu nema útlendingar fatti snilldina.
Tveimur árum síðar stofnar hann Kosmos og Kaos með Stjána (Kristjáni Gunnarssyni) og flestir í vefbransanum þekkja velgengnissöguna eftir það, m.a. í ríkulegri uppskeru á SVEF hátíð og hönnun Bláa lóns vefsins.
En hver er maðurinn? Ég spyr og Gummi Sig svarar.
[bra_border_divider]
Spurt og svarað
Nafn: Guðmundur Bjarni Sigurðsson
Fjölskylduhagir: Giftur með 4 börn og einn hund
Menntun: Sveinspróf í grafískri miðlun (media grafiker) frá Köbenhavns Tekniske Skole
Hvað færðu þér í morgunmat? Ekkert, ég fasta milli 21:00 og 13:00
Uppáhaldsdrykkur? Kaffi eins og er, langar að koma mér aftur í teið, það var alveg uppáhalds 🙂
Af hverju Keflavík? Fæddur og uppalinn. Fluttum hingað aftur frá Danmörku eftir nám til að fá stuðning frá nærfjölskyldunni, sem við fengum. Svo hefur Keflavík upp á svo margt gott að bjóða bæði fyrir fjölskyldur og fyrirtæki
Ef ekki Ísland hvar værir þú að vinna þá? París eða San Francisco
Besta kvikmyndin? The Big Lebowsky
Uppáhaldstónlistin? Elektróník, allt með beljandi góðu bíti
Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir utan vinnunnar? Metabolic eða kítlileikur með krökkunum mínum
Hvernig slakarðu á? Hugleiðsla
Af hvaða verkefni ertu stoltastur? gummisig.com af því að hann kom mér á kortið. Hef samt gert svo margt æðislegt fyrir aðra og kann ekki við að taka eitt fram yfir annað, einhver gæti orðið öfundsjúkur eða fúll 🙂
Stærsti áhrifavaldur í vefmálum? Jón Karlsson
Besta vefbókin? Designing with web standards (Jeffrey Zeldman)
Ef þú mættir aðeins vera á einum samfélagsvef, hvern myndirðu velja? Facebook
Er responsive bara bóla? Nei
Ertu trúaður? Já, en líklega ekki eins og þú heldur
Besti vefur sem þú hefur hannað? Segi bara gummisig.com aftur af sömu ástæðu og hér að ofan
Mikilvægasta viðurkenningin sem þú hefur fengið? Líklega vefverðlaunin 2009
Er nauðsynlegt að kenna vefhönnun? Nei en það skemmir alls ekki. Ef þú hefur ekki áhuga, ástríðu og dug þá hjálpar ekkert nám þér að verða góð(ur) í þessu