Vinna sem er lögð í undirbúning vefverkefna verður aldrei ofmetin. Hún skilar sér alltaf. Það er ekki hægt að stytta sér leið með því að vaða beint í verkefnið án undirbúnings. Það gildir í raun um alla skapaða hluti hvort sem þið eruð að smíða hús, mála íbúðina eða elda mat!
Þó verkefnið sé lítið í sniðum þá borgar sig að skrifa lýsingu, það sparar tíma og fé til lengri tíma er litið. Í stærri verkefnum er slíkt algjör nauðsyn ef ekki á að fara illa. Forritari sem hefur ekki góða verkefnalýsingu mun verja margföldum tíma í sína vinnu með hættum á fleiri villum. Það sama á við um vefhönnuð.
Varist of mikinn undirbúning
Það er hins vegar engin ástæða til að leggja ofurháhersla á undirbúning, fara of djúpt í uppsetningu alls kyns verkferla eða koma sér upp flóknum verkfærum til að halda utan um verkefnin. Það getur nefnilega tekið óratíma að halda utan um eitt verkferlaskjal.
Mér hefur reynst best að halda utan um mín vefverkefni, stór sem smá, í ritvinnslu og töflureikni. Ég nota ritvinnsluforrit til að skrifa niður þarfagreininguna og kröfulýsingu. Excel skjalið heldur síðan utan um veftréð, dagsetningar og áætlanagerð. Mindmanager er reyndar betra tól til að setja upp veftré, auðveldara að búa til gagnvirkni í því. Svo eru til önnur flottari tól sem hægt er að mæla með t.d. til að setja upp grind (wireframe) vefsins, s.s. Mock Flow og Jumpchart.
Samhengi í kröfulýsingu
Í hverri kröfulýsingu þarf að vera þrenns konar samhengi.
- Markmið fyrirtækisins þurfa að vera ljós
- Markmið vefsins þarf að vera skýrt. Hvers vegna er þessi vefur til. Hvaða markmiðum vill hann ná?
- Markmið vefverkefnisins. Hvernig á þetta tiltekna verkefni að aðstoða við að ná þessum markmiðum?
Annað sem þarf að hafa í huga í kröfulýsingu:
- Hver er megin tilgangurinn með verkefninu
- Lýsing á virkni
- Ákveða hvernig árangur verkefnisins verður mældur
- Leggja mat á verkefnið í samanburði við núverandi vef
- Bera verkefnið saman við samkeppnisaðilana
- Skilningur á því hver markhópurinn er
- Lýsing á leiðarkerfi
- Setja upp veftré og lýsing á efni og virkni hverrar síðu
- Lýsing á virkni leitarvélar
- Skilgreining á útlitshönnun og sniðmátum með aðstoð „wireframe“ tóla
- Ákveða hver vafrastuðningur eigi að vera
- Skilgreina ábyrgð á efni