Gera má ráð fyrir því að allir sem reka vefi hafi það markmið að vefurinn finnist ofarlega í leitarvélum. Google gefur ítarlegar og góðar leiðbeiningar í þessum efnum sem ég hvet lesendur til að kynna sér.

Fjöldinn allur af ráðgjöfum gefur sig út fyrir að aðstoða vefstjóra og eigendur fyrirtækja að bæta sýnileika í leitarvélum. Aðferðafræðin sem notuð er gengur yfirleitt undir heitinu leitarvélabestun sem er þýðing á Search Engine Optimization eða SEO.

Það er fyllsta ástæða til að vera á varðbergi gagnvart ýmsum “sérfræðingum” á þessu sviði og þá sérstaklega þeim sem lofa skjótum árangri. Í raun veit enginn nema eigendur Google hvað það er sem raunverulega skilar bestum árangri. Það er enga uppskrift að finna og viðmið leitarvéla breytast líka reglulega.

Finndu kjarnaorðin sem lesendur nota

Ég gef mig ekki út fyrir að vera sérfræðingur á þessu sviði en ég veit þó hvað er sem skilar árangri til langs tíma. Það er nefnilega ekkert sem kemur í staðinn fyrir gott efni og vel hannaðan vef. Þú sem vefstjóri verður að huga vel að uppbyggingu vefsins, finna leitarorðin sem notendur slá inn og nota þau á vefnum, skrifa læsilegan texta, velja heiti á tenglum af kostgæfni, byggja upp leiðarkerfið eftir vandlega íhugun og tryggja að vefurinn sé nytsamur. Það er því ekki einfalt að stytta sér leið í þessum efnum, þetta er vinna og aftur vinna. Og meira að segja nokkuð erfið vinna.

Ef þú ætlar að ná langt og auka möguleika þína á að vera á fyrstu síðu í leitarniðurstöðum þá verður þú að gera þér grein fyrir að þetta er langtíma verkefni. Þú verður í fyrsta lagi að átta þig á því hvernig fólk leitar á vefnum. Leitarvélabestun (SEO) er ekki langtímastefna. Það er hægt að beita ýmsum trikkum til að komast ofarlega en það vinnur gegn langtíma markmiðinu.

Efni á síðum sem ætlað er leitarvélum er yfirleitt óáhugavert og beinlínis fjandsamlegt lesandanum. Það er oft verið að stagla á sömu kjarnaorðunum. Það er leið meðalhófs í þessu sem öðru sem gildir. Það er hægt að skrifa efni sem gott er að lesa sem um leið skilar sér vel í niðurstöðum leitarvéla. Til að ná árangri þá þarftu að þekkja orðin sem viðskiptavinur þinn notar, ekki þín eigin.

Smíðaðu vef fyrir lesendur ekki leitarvélar

Allir vefstjórar ættu að skrá sig inn á síðu Google Webmasters en þar er að finna leiðbeiningar frá Google um lykilþætti sem þarf að hafa í huga til að finnast í leitarvél og ekki síður yfirlit um óæskilegar aðferðir, sem geta valdið því að vefir fari á bannlista Google (blacklisted).

Hér er stutt útgáfa af leiðbeiningum Google. Þær eru mun ítarlegri og þá sérstaklega skauta ég hratt yfir tæknikaflann.

  1. Þegar vefurinn er kominn í loftið skráðu hann hjá Google
  2. Sendu inn veftré (sitemap) í gegnum Google Webmaster Tools
  3. Upplýstu alla vefi sem ættu að vita af tilvist vefsins þíns um að hann sé kominn í loftið

Aðrar leiðbeiningar eru flokkaðar í þrjá flokka

1. Hönnun og efni

  • Hafðu skýra uppbyggingu og textatengla
  • Hafðu veftré aðgengilegt
  • Hafðu fjölda tengla á hverri síðu innan eðlilegra marka
  • Hafðu gott efni, vel skrifað, lýsandi og gagnlegt
  • Gættu vel að orðanotkun, að orðin endurspegli það sem notandinn leitar eftir
  • Varastu að nota myndir eingöngu fyrir efni, nöfn og tengla. Notaðu texta
  • Hugaðu vel að ALT tögum og fyrirsögnum, eiga að vera lýsandi og nákvæm
  • Kannaðu hvort tenglar séu brotnir og að HTML sé vel skrifað
  • Athugaðu að dýnamískar slóðir (t.d. sem innihalda ? í vefslóð) eru ekki alltaf skoðaðar af leitarvélum. Betra að hafa statískar slóðir

2. Tækni

  • Notaðu textavafra eins og Lynx til að prófa vefinn þinn. Google hefur nefnilega engan áhuga á útliti eða flottri virkni á vefnum þínum. Google er eins og dæmigerður fatlaður notandi sem heyrir hvorki né sér
  • Tryggðu þér gott vefumsjónarkerfi sem skilar kóða sem leitarvélar geta skoðað
  • Prófaðu vefinn þinn í mismunandi vöfrum
  • Mældu hve vefurinn þinn er hraður og gerðu ráðstafanir ef hann er hægur

3. Gæði

  • Almennt segir Google að þú eigir að smíða vefi fyrir notendur en ekki leitarvélar
  • Forðastu trikk til að bæta leitarniðurstöður. Spurðu sjálfan þig hvort þú treystir þér til að segja samkeppnisaðila þínum frá því sem þú gerðir. Spurðu einnig hvort þú hefðir gert þetta ef leitarvélar væru ekki til?
  • Ekki skipta á tenglum við ótengda aðila
  • Ekki nota falda tengla og texta
  • Ekki senda sjálfvirkar skráningar til Google
  • Ekki smíða síður með ótengdum lykilorðum
  • Ekki búa til síður, undirvefi eða aukavefi með afriti af efni annars vefs
  • Ekki búa til “doorway” síður sem eru bara smíðaðar fyrir leitarvélar
  • Umfram allt vertu með gæðaefni sem gagnast þínum notendum.

Áður en þú velur þér aðila til að vinna með í leitarvélabestun spurðu viðkomandi hvort hann fylgi leiðbeiningum Google?

2 Comments

  1. Þú segir: ,,Það er fyllsta ástæða til að vera á varðbergi gagnvart ýmsum “sérfræðingum” á þessu sviði og þá sérstaklega þeim sem lofa skjótum árangri. Í raun veit enginn nema eigendur Google hvað það er sem raunverulega skilar bestum árangri. Það er enga uppskrift að finna og viðmið leitarvéla breytast líka reglulega”.

    VIssulega ber að varast það að treysta engum um of en hvað varðar restina af fullyrðingunni þá verð ég að vera ósammála þér. Auðvitað eru vel þekktar þær leiðir sem best væri að fara eftir og þú útlistar þær ágætlega hér að ofan en það er vel hægt að ná skjótum árangri í þessu ef maður veit hvað maður er að gera því þessi “organic” leið getur tekið mánuði eða ár og það er kannski ekki eitthvað sem flestir eru tilbúnir til að sitja undir. Svo er auðvitað gríðarlegur munur að vinna að leitarvélarbestun með íslenskar vefsíður vs. það að vinna með erlendar þar sem samkeppnin er á allt öðru leveli.

    Og ef þú veist ekki hvað virkar og hvað virkar ekki þá ertu einfaldlega ekki að fylgjast með….

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.