Vefurinn er ungur og frekar fáar hefðir hafa myndast í vefhönnun í samanburði við aðra miðla. Ein hefð er nánast að verða ófrávíkjanleg en það er staðsetning á merki eða logo fyrirtækis efst í vinstra horni á vef. Þar vita notendur að þeir geta alltaf komist í heimahöfn hvar sem þeir eru staddir á vefnum. Fáir vefir brjóta þessa reglu.

Önnur hefð snýr að leiðarkerfi. Flestir vefir eru smíðaðir með láréttu aðalleiðarkerfi, þó engin ein regla sé um hvort síður falli niður í valmynd og jafnvel risavalmynd (mega menu) eða hvort þér er vísað á undirsíður sem eru  gjarnan í vinstra dálki eða beint undir aðalvalmynd.

Þriðja hefðin sem fáir brjóta er leitin sem í lang flestum tilvikum er staðsett ofarlega í hægra horni. Hún er yfirleitt gerð mjög sýnileg og vel aðgreind frá öðru efni.

Þessar þrjár hefðir hafa myndað e.k. heilaga þrenningu eða L-in þrjú: Logo, leiðarkerfi og leit. Í ýmsum biblíum í veffræðunum er þetta áréttað, svo sem í hinni merku bók “Don’t make me think” eftir Steve Krug, einn fremsta sérfræðing í nytsemi á vefnum.

Brestir í stoðir hinnar heilögu þrenningar

Það virðist vera kominn brestur í stoðir hinnar heilögu þrenningar. Ég tók líklega fyrst eftir þessu þegar hinn ágæti vefur Meniga var verðlaunaður fyrir besta vefinn árið 2010 hjá SVEF. Þessi vefur er mjög vel hannaður, ánægjuleg upplifun, stórt og skýrt letur, gagnlegar upplýsingar og leiðarkerfið ágætt. Ég sakna þess þó að sjá ekki lifandi svæði fyrir fréttir eða nýjungar frá fyrirtækinu en af fyrirtækinu berast stöðugt jákvæðar fréttir.

Vefur Meniga
Vefur Meniga heimilisbókhaldsins

Svo kom að vefverðlaunum fyrir árið 2011. Og þá hlaut vefur Orkusölunnar þessi sömu verðlaun, fyllilega verðskuldað held ég. Og viti menn. Engin leit þar heldur. Nú var Bleik brugðið. Er þetta það sem koma skal? Er leit óþarfi á vefjum sem þessum, sem hvorugur getur talist stór en þó flokkast heldur ekki með smávefjum. Það má líklega alveg réttlæta það að vefur eins og funksjon.net hafi ekki leit enda fremur lítill vefur en fyrir meðalstóra og stærri vefi erum við beinlínis að torvelda viðskiptavinum aðgang að upplýsingum.

Vefur Orkusölunnar
Vefur Orkusölunnar

Aðrir nýlegir vefir sem ég hef rambað inn á án þess að finna leitarglugga eru m.a. vefur Skapalóns og Netliferesearch.

Hvað segja leitarnotendur á vefnum?

Margir notendur á vefnum eru svokallaðir leitarnotendur. Þeir vaða nánast beint í leit, gefa lítið færi á því að vefsíðan sem þeir lenda á svari spurningum þeirra. Þetta sér maður í notendaprófunum trekk í trekk, líklega óþolinmóðustu viðskiptavinirnir. Ég er kannski ekki alveg í þessum hópi en samt óþolinmóður notandi og gríp fljótt til leitar ef vefurinn er ekki skýr.

Það væri áhugavert að fá umræðu um þetta á vettvangi SVEF eða meðal vefhönnuða almennt. Er hin heilaga þrenning afhelguð? Hvaða viðmið er hægt að setja um leit á vef? Hvað þarf vefur að verða stór til að leit sé ekki umflúin?

Tengt efni:

Áskrift að fróðleik um vefmál?
Á funksjon.net eru reglulega birtir pistlar um vefmál. Hægt er að gerast áskrifandi með tölvupósti eða fá uppfærslur með RSS.

3 Comments

  1. Er ekki kominn tími á að vefir séu það vel uppbyggðir að notendur þurfi ekki að grípa til leitar til að finna efni?

    Ég fer í leitina þegar ég gefst upp. Ekki viss í hvað ég myndi nota leit á Meniga eða Orkusölunni, a.m.k ekki ef ég er nýr notandi. Grípandi fyrirsagnir, skýr texti, augljós uppbygging á efni er það sem fær mitt atkvæði.

    Annars er Orkusalan skrýtinn vefur, truflar mig rosalega að leiðarkerfið virðist hreinlega bilað. Hvað er málið með það eiginlega?

    1. Alveg sammála þér Egill að vel uppbyggður, lítill og meðalstór vefur þarf ekki á leit að halda. En stærri vefir og þeir sem birta áhugaverðar greinar og fréttir þurfa að bjóða upp á leit. Ekki síst fyrir þessa óþolinmóðustu.

      Það sem vakti fyrir mér með þessari grein var að vekja umræðu um hvort verið væri að brjótast undan þessari hefð sem hefur þó skapast og snillingar eins og Steve Krug tala um.

      Vefur Orkusölunnar er að feta nýjar brautir í vefhönnun að mörgu leyti og tekur áhættu t.d. varðandi leiðarkerfið. Það gerir líka nýr vefur Landsbankans með margskiptu leiðarkerfi. Áhugavert væri að heyra hvernig þeir koma út í notendaprófunum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.