Ríkissjónvarpið hefur undanfarnar vikur sýnt stórgóða þætti frá BBC sem nefnast Heimur orðanna (e. Planet Word) í umsjón Stephen Fry. Þessir þættir hafa vakið mig til umhugsunar um hvernig við metum mikilvægi orðanna í netheimum.
Tungumálið og tjáning með orðum er það sem greinir mannskepnuna frá öðrum verum á plánetunni Jörð. Á meðal okkar eru fjölmargir töframenn sem kunna að raða saman orðum með þeim hætti sem aðrir geta aðeins leyft sér að dreyma um. Þar fara fremst skáldin. Í lokaþættinum var m.a. fjallað um Shakespeare og áhrif hans á tungumálið. Kallinum, sem var uppi fyrir liðlega 400 árum, eru eignuð um 3000 orð sem eru nú hluti af enskri tungu. Það er vel gert.
Fátt er meira endurnærandi en að lesa góða skáldsögu. Að baki hverri síðu má ætla að skáldið hafi meitlað, endursamið og legið yfir hverri setningu áður en bókin leit dagsins ljós. Við berum virðingu fyrir skáldunum. En hvað með þá sem hafa lifibrauð sitt af því að skrifa fyrir vef eða aðra miðla á netinu?
Hvað borgum við fyrir skrif fyrir vef?
Peningar eru klárlega mælikvarði á hvernig við metum vinnu fólks. Í vefheimum gera stærri fyrirtæki ekki athugasemd við að borga forritara á bilinu 15-20.000 krónur fyrir hverja unna klukkustund. Þau eru líka tilbúin að borga vefhönnuði á bilinu 10-15.000 krónur fyrir sömu vinnu. Aðrir sérfræðingar fá gjarnan greitt yfir 10 þúsund krónur á tímann. Þegar kemur að textasmíð fyrir vefinn þá hefur lenskan verið að það sé alltaf einhver innanhúss brúklegur til að smíða texta. Með öðrum orðum, fyrirtæki vilja helst ekkert borga aukalega fyrir þetta viðvik – skrif fyrir vef. Svo sannarlega liggur menntun ekki þarna til grundvallar. Þeir sem fá greitt mest í vefheimum eru gjarnan með minnstu menntunina.
Hvers vegna ríkir þetta viðhorf enn þann dag í dag? Vitaskuld ræðst þessi verðlagning að nokkru leyti af framboði og eftirspurn en verðmætamat hefur mikið með hana að gera. Það er algeng hugsun að óþarft sé að borga eitthvað fyrir textasmíð, það geta jú allir skrifað eða hvað?
Gullöld hins orðhaga í uppsiglingu?
Vefurinn er ungur miðill og hefur í raun ekki enn slitið barnsskónum. Stóra verkefnið sem við glímum við í dag á vefnum er ekki skortur á efni heldur brjálæðisleg ofgnótt af upplýsingum. Það þarf orðsnillinga til að koma böndum á ótemjuna og greina það sem skiptir máli, velja réttu orðin, skrifa réttu fyrirsagnirnar og losa okkur við það sem skiptir ekki máli. Framundan gæti því verið gullöld hins orðhaga á netinu.
Við þurfum því fólk sem kann að hámarka efni sem kemur inn en lágmarka það sem fer út. Við höfum takmarkaðan tíma á vefnum og óþolinmæði okkar á sér vart takmörk. Ábyrgð þess sem smíðar efni fyrir vefinn er því mikil, hann þarf að þekkja orðin sem fólk notar, hann þarf að eyða út ónauðsynlegum orðum, hann þarf að einblína á það sem skiptir máli og hann þarf umfram allt að vanda sig. Fyrir þessa vinnu þarf að greiða sanngjarnt verð. Og þessa hæfileika sækjum við ekki hvert sem er. Reynsla, þjálfun, hæfileikar og snilld kostar skildinginn.
Ef Norman gat klikkað…
Einn af virtustu sérfræðingum á sviði nytsemi (e. usability), Donald Norman (félagi Jakob Nielsen), gaf eitt sinn út bók undir heitinu Psychology of everyday things (sálfræði hversdagslegra hluta). Þessi bók naut mikillar virðingar á sínu sviði þegar hún kom út en seldist ekki grimmt fyrr en nafni bókarinnar var breytt í Design of everyday things (hönnun hversdagslegra hluta). Í fyrsta lagi var bókin rangt flokkuð í bókabúðum vegna titilisins og í öðru lagi var fyrri titilinn engan veginn lýsandi fyrir efni bókarinnar. Ef þetta gat hent Norman þá getum við hin ófullkomnu verið rólegri.
Eitt orð getur því skipt höfuðmáli.
2 Comments