Þegar ég fór af stað með funksjon.net í nóvember 2010 vakti aðeins fyrir mér að hafa aðgengilegan vef með völdu efni fyrir nemendur mína hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Nú 30 mánuðum síðar hafa birst yfir 60 greinar. Sumar góðar, aðrar ekki eins góðar. Meðfylgjandi er samantekt á besta efninu.
Í fyrstu var frekar lítið líf á vefnum en um áramót 2011/2012 varð viðsnúningur. Ég fann hjá mér þörf til að skrifa útdrætti úr mörgum bókum sem ég var að lesa um vefmál og setja í íslenskt samhengi. Fróðleikur fyrir vefstjóra er mér sérstaklega hugleikinn þó ég hafi farið aðeins víðar um vefvöllinn. Síðan hefur þörfin fyrir að skrifa vaxið og satt best að segja bíða tugir hugmynda í dag þess að verða að greinum. Aðeins tímann skortir.
Margar þessara greina hafa öðlast nýtt líf sérstaklega með tilstuðlan Facebook og Google. Smám saman hefur þessi litli bloggvefur fengið meiri athygli. Lesendur deila í ríkara mæli greinum í gegnum samfélagsmiðla og efni þeirra dúkkar upp í leitarvélum. Ég er þakklátur fyrir það. Þó skúffan sé ágæt þá er vitaskuld skemmtilegra að hafa lesendur.
Frá 2012 hafa að jafnaði 2-4 greinar birst í hverjum mánuði. Markmiðið í dag er að skrifa 1 grein á viku og ég vona að það verði að veruleika frá og með maí 2013. Ég er afskaplega þakklátur vaxandi fjölda dyggra lesenda og ánægjulegum viðbrögðum. Vonandi get ég launað tryggðina síðar með framsetningu efnisins í bókarformi síðar.
Það er erfitt að ráða stundum í hvaða greinar eru fallnar til vinsælda og hverjar ekki. Mér finnst ég stundum hafa skrifað tímamótagrein sem fær svo fremur lítinn lestur. Síðan koma aðrar að mínu mati léttvægari sem fá mikla athygli.
Hér fyrir neðan má finna 10 mest lesnu greinarnar og aðrar 5 sem ég tel að verðskuldi meiri lestur!
Tíu mestu lesnu greinarnar
- Nova: Gott fyrirtæki sem misskilur vefinn
- 11 heilræði vefstjóra 2013
- Ferðabransinn kom sá og sigraði á SVEF 2012
- Yfirlit um vefsamkomur 2013
- Íslenskir responsive / skalanlegir vefir
- 10 bestu innri vefirnir 2013
- Viðvörun! Nýr texti á vefinn
- Reynslusögur frá starfi vefstjórans
- Ertu háseti eða skipstjóri á þínum vef?
- Það geta ekki allir orðið vefhönnuðir
- Orð skipta máli