Fúnksjón er ráðgjöf Sigurjóns Ólafssonar.
Frá 2019 hef ég starfað sem sviðsstjóri þjónustu og þróunar hjá Hafnarfjarðarbæ og leitt stafræna umbreytingu hjá þriðja stærsta sveitarfélagi landsins. Árangur bæjarins hefur vakið athygli víða en að mörgu leyti hefur Hafnarfjarðarbær leitt stafrænar breytingar í sveitarfélögum.
Lesa má um fjölda verkefna í svonefndum verkefnasögum á vef bæjarins. Kynnast má ýmsum verkefnum enn fremur í erindum sem voru flutt á ráðstefnu sem við stóðum fyrir í Bæjarbíói 10. nóvember 2022.
Í stafrænum verkefnum í yfir 25 ár
Síðastliðin 25 ár hef ég meira eða minna unnið við stafræna þróun og tekið virkan þátt í að móta þjónustu hjá bönkum, ríkisstofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum á Íslandi í gegnum störf mín sem leiðtogi í stafrænni þróun og farsælli vefráðgjöf í sex ár.
Í starfi mínu sem stundakennari og síðar aðjúnkt í vefmiðlun við Háskóla Íslands hef ég verið þeirrar ánægju aðnjótandi að mennta og þjálfa efnilega og metnaðarfulla einstaklinga á sviði vefmiðlunar. Með kennslunni hef ég stuðlað að eigin endurmenntun og hef lesið ógrynni rita og fylgst með á netinu um allar helstu nýjungar á sviði notendaupplifunar (UX), þjónustuhönnunar og almennrar vefþróunar. Á hverju ári hef ég einnig flutt fyrirlestra á mínu sviði og undirbúningur fyrir þá er einnig alltaf talsverður. Árið 2015 gaf ég út handbók ætlaða vefstjórum eða Bókina um vefinn.
Á þessum árum hef ég byggt upp öflugt tengslanet sem hefur komið sér sérlega vel í núverandi starfi mínu. Hjá Hafnarfjarðarbæ hefur starfað rjóminn af sérfræðingum í stafrænni þróun og þjónustuupplifun í ráðgjafastörfum. Þannig hef ég náð að byggja upp öfluga stafræna þróun án þess að fjölga starfsfólki hjá Hafnarfjarðarbæ síðustu ár en fengið nauðsynlegan fjárhagslegan stuðning til að ráða inn teymi sérfræðinga. Þetta tengslanet mun nýtast mínum viðskiptavinum.
Af hverju að endurvekja Fúnksjón?
En af hverju snýr Fúnksjón aftur og af hverju tímabundið? Jú ástæðan er sú að ég flutti ásamt fjölskyldunni til Madridar í eitt ár haustið 2023. Umsamið var að ég myndi sinna starfi sviðsstjóra í sex mánuði í fjarvinnu en fara síðan í launalaust leyfi næstu sex mánuði. Og þá er tækifæri til að dusta rykið af ráðgjöfinni sem reyndist svo farsæl í sex ár.
Reynsla mín frá starfinu í Hafnarfirði getur reynst öðrum stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum vel á hvaða stigi sem þau eru í stafrænni umbreytingu.
Ég hef umtalsverða stjórnunarreynslu og gengið vel á því sviði. Hlotnaðist sá heiður að vera útnefndur millistjórnandi ársins árið 2022 hjá Stjórnvísi og fengið afar góða útkomu sem stjórnandi í vinnustaðagreiningum hjá Hafnarfjarðarbæ.
Ég var lánsamur með verkefni og viðskiptavini þessi sex ár eins og ég hef rakið í ársuppgjörum Fúnksjón. Ráðgjöfin gekk allan tímann vel og veltan óx á hverju starfsári.
Auk ráðgjafastarfa sinnti ég stöðu stundakennara og síðar aðjúnkts í vefmiðlun við Háskóla Íslands frá 2011-2019 og kenndi um nokkurra ára skeið við Vefskóla Tækniskóla Íslands.
Hafðu samband
Ef þú heldur að ég geti aðstoðað þitt fyrirtæki eða stofnun þá endilega hafðu samband í síma 664 5505 eða sendu mér línu á sjon@funksjon.net.